Helgi Freyr segir ekkert sjálfgefið að Tindastóll sé með lið í úrvalsdeild

Nú er það ljóst að Tindastóll endaði í fjórða sæti Subway deildarinnar í körfubolta eftir að spennandi lokaumferð lauk sl. fimmtudag. Árangur Stóla er nokkuð á pari við spár sem birtar voru fyrir tímabilið þar sem þeim var spáð 5. sæti af þjálfurum fyrirliðum og formönnum liða en 3. sæti af fjölmiðlum. Að vera kominn með heimavallarrétt í úrslitakeppninni er sérlega góður árangur m.t.t. til stöðu liðsins fyrir ekki svo löngu þegar ekki var útséð með það hvort liðið næði inn í úrslitakeppnina.

Á fimmtudaginn tóku Stólar á móti Þór Akureyri en um svokallaðan skyldusigur var að ræða. Þórsarar voru fallnir um deild og höfðu sent flesta erlendu leikmenn sína heim en þeim til hróss má segja að þeir komu baráttuglaðir og ætluðu sér ekki að gera Stólum þetta auðvelt. Tókst þeim að gefa Stólum alvöru leik þó sigur heimamanna hafi aldrei verið í hættu. Það er leiðinlegt að sjá á eftir Þórsurum niður en innan liðsins eru mjög frambærilegir leikmenn sem eiga eftir að taka út reynslu og þroska í fyrstu deildinni og vonandi sjáum við þá sem fyrst í deild hinna bestu.

Ekki verður gangur leiks rakinn hér en gaman að segja frá því að fyrir leikinn var Helgi Freyr Margeirsson, fv. leikmaður og núverandi aðstoðarþjálfari, heiðraður fyrir framlag sitt til klúbbsins og var skyrta merkt honum fest á gafl íþróttahússins og hangir hún þar ásmt skyrtum Svavars Birgis Atlasonar, sem einnig er fv. leikmaður og núverandi aðstoðarþjálfari, og Kára Maríssonar, goðsagnar körfuboltans á Króknum og víðar.

Feykir hafði samband við Helga Frey og heyrði í honum hljóðið.

„Þetta var leikur sem var mikið atriði að byrja af krafti og taka stjórn á frá byrjun. Þórsarar hafa sýnt það að þeir gefa ekkert eftir til síðustu mínútu. Ég var mjög ánægður með hvernig liðið opnaði leikinn með okkar þéttu og ákveðnu vörn sem setti tóninn fyrir kvöldið. Annað sem ég var mjög ánægður með var hvernig við náðum að spila ungu stráknum okkar, framtíð Tindastóls inn í leikinn og hvernig þeir nýttu þetta tækifæri sitt. Stemningin í húsinu var svo upp á tíu, sem gefur svo mikinn kraft til liðsins.“

Sigurður Þorsteins var ekki með í leiknum, hvað var að hrjá kappann?
„Siggi er búinn að vera með smá eymsli í hné, það var því faglegt mat að hvíla hann í þessum leik. Hann er orðinn góður, og klár fyrir úrslitakeppnina.“

Fyrir mánuði var ekki útséð með það að liðið kæmist í úrslitakeppnina en endar svo í fjórða sæti eftir sjö sigurleiki í röð. Er eitthvað sem skýrir þennan viðsnúning?
„Það er erfitt að benda á eitthvað eitt. Liðið er að kjarnast saman á besta tíma sem kemur í kjölfarið á því að leikmenn eru með skýr hlutverk, hvattir til að gera það sem þeir eru góðir í og minnka annað, þannig er hver og einn leikmaður að hámarka það góða sem hann gefur liðinu á hverjum tíma. Áhersla á varnarleik liðsins frá maður á mann vörn upp allan völlinn til hjálparvarnar hefur verið skerpt og leikmenn eru tilbúnir að gefa liðinu sín 100% í vörninni þó að það taki rosalega orku, því til lengri tíma skilar það árangri fyrir liðið. Þetta saman vinnur svo að sterkari liðsheild sem er núna frábær í öllum hópnum og skilar sér upp í stúku.“

Hvernig líst þér á að eiga við Keflavík í úrslitakeppninni?
„Mér líst vel á þessa rimmu, þetta verður mikil barátta og ekkert gefið eftir. Keflavík er hæfileikaríkt lið með reyndan þjálfara. Við erum klárir og ætlum okkur að halda áfram á sömu braut og í síðustu leikjum.“

Við hverju má búast?
„Keflavík líður betur í hægum leik og nýta þannig Milka sem er einn stærsti pósturinn í deildinni sem best, Hörður stýrir liðinu með sinni miklu reynslu og svo eru þarna öflugir leikmenn sem við þekkjum vel í Val Orra „okkar“ og Jaka Brodnik sem eru alltaf hættulegir. Við munum vilja reyna að keyra hraðann upp og spila stífa vörn, reyna að loka á skyttur þeirra og svo Milka í og við teiginn.“

Nú fékk treyjan þín virðulegan sess á vegg íþróttahússins, hvernig er tilfinningin?
„Ég er mjög þakklátur og stoltur af því að mér sé sýndur þessi mikli heiður. Þetta var mjög góð stund sem ég átti fyrir framan fjölskylduna mína, vini og alla aðra stuðningsmenn liðsins þegar ég þakkaði fyrir mig, ég átti nú bara pínu erfitt með mig satt best að segja.“

Eitthvað sem þú vilt koma á framfæri?
„Til allra sem fylgjast með liðinu hvort sem er úr fjarlægð eða nánd vil ég segja að það er ekkert sjálfgefið að Tindastóll frá Sauðárkróki sé með lið í úrvalsdeild í liðsíþrótt, hvað þá að finna sig á tímum í stöðu til að vinna titla. Þegar þetta tímabil endar gæti staðan verið sú að körfuknattleikslið Tindastóls sé eina úrvalsdeildarliðið í körfubolta utan Höfuðborgarsvæðisins og Reykjanessins fyrir utan Þór frá Þorlákshöfn. Tindastóll er liðið okkar, það hefur gefið okkur óteljandi spennu og gleðistundir, stuðlað að jákvæðri umfjöllum af svæðinu í landsfjölmiðlum (sem allt of lítið er af) og gert okkur svo stolt í gegnum tíðina. Til að þetta gangi upp höfum við fengið ótrúlegan stuðning frá bæði okkar stuðningsfólki og fjölmörgum styrktaraðilum af öllum stærðum innan og utan héraðs, þið eigið allar þakkir skyldar því án ykkar væri ekkert lið.“

Helgi vill hvetja þá sem geta lagt af mörgum til að gerast Vildarvinur deildarinnar (styrkur sem telur á móti tekjuskatti), en það er hægt að nálgast  HÉR en margt smátt gerir eitt stórt og eða bjóða sig fram til starfa fyrir deildina  HÉR hvort heldur sem er í einstök verkefni (fjölbreytt og fjölmörg) hjá stjórninni, margar hendur vinna létt verk eins og það stendur.

„Gerum þetta áfram saman og tryggjum áframhaldandi sess Tindastóls í Úrvalsdeild. Áfram Tindastóll, alltaf allstaðar!“ segir Helgi að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir