Hannah Cade á krókinn hjá kvennaliðinu

Hannah Jane Cade, sem spilaði með Fram í 2. deild kvenna sl. sumar, hefur samið við knattspyrnudeild Tindastóls um að stíga dansinn með Stólastúlkum í Lengjudeildinni í sumar. Hannah er 24 ára miðjumaður og er væntanleg til landsins um miðjan febrúar.

„Hannah Cade er fjölhæfur miðjumaður sem getur einnig leyst fleiri stöður á vellinum. Hannah er frábær karakter og góður liðsmaður sem við væntum mjög mikils af. Við hlökkum mikið til að fá hana til okkar í febrúar og gerum ráð fyrir því að hún muni hafa góð áhrif á liðið að öllu leyti,“ segir Donni aðalþjálfari meistaraflokka Tindastóls í samtali við Tindastóll.is.

Hannah skoraði fjögur mörk í 16 leikjum með liði Fram síðastliðið sumar, var valin besti leikmaður liðsins ásamt því að vera valin í lið ársins i 2. deild hjá Fótbolti.net. Áður en Hannah kom til Íslands spilaði hún stórt hlutverk í sterku liði i háskólaboltanum i USA.

Lið Fram endaði í fjórða sæti í 2. deildinni síðasta sumar og komst þar með í úrslitakeppni um sæti í Lengjudeildinni. Þar lutu Fram-stúlkur í gras gegn spræku liði Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis og tapaði síðan leiknum um þriðja sætið gegn liði Völsungs en leikurinn fór fram á Sauðárkróksvelli í septemberblíðunni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir