Hamrarnir sigruðu Stólastúlkur á Akureyri
Hamrarnir frá Akureyri mörðu sigur á stelpunum í Tindastól í 1. deildinni í knattspyrnu sl. föstudag en leikurinn fór fram í Boganum. Elva Marý Baldursdóttir skoraði eina mark leiksins úr vítaspyrnu á 39. Mínútu. María Dögg Jóhannesdóttir varð fyrir óhappi rétt eftir hálfleik og var flutt á sjúkrahús, meidd á hné. Inn á fyrir hana kom Hrafnhildur Björnsdóttir.
Tindastóll gerði tvær aðrar breytingar á liðinu þegar Bryndís Rut Haraldsdóttir kom inn á fyrir Guðrúnu Jenný Ágústsdóttur og Sunna Björk Atladóttir leysti Önnu Margréti Hörpudóttur af. Byrjunarliðið var skipað auk þessara þriggja sem á undan er talið þeim Ana Lucia N. Dos Santos sem stendur í markinu, Vigdísi Eddu Friðriksdóttur, Ólínu Sif Einarsdóttur, Laufeyju Hörpu Halldórsdóttur, Sólveigu Birtu Eiðsdóttur, Kristrúnu Maríu Magnúsdóttur og Evu Banton Madison Cannon. Þjálfari er Arnar Skúli Atlason og honum til aðstoðar í liðsstjórn þau Brenton Muhammad, Silja Ýr Gunnarsdóttir og Lísa Margrét Rúnarsdóttir.
Stólastúlkur sitja stigalausar á botni 1. deildar eftir þrjá leiki, hafa fengið á sig átta mörk en ekki náð að skora enn. Þó staðan sé þessi hjá liðinu má vel búast við því að það fari í gang og landi sigrum í sumar. Næsti leikur þeirra er á föstudag er þær fá Fylki í heimsókn í bikarnum og er óhætt að hvetja alla til a mæta á völlinn og styðja við bakið á þeim. Strax á mánudag 5. júní verður svo deildarleikur gegn Selfossi, einnig á Sauðárkróksvelli.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.