Grunnskóli austan Vatna sigraði í sínum riðli í Skólahreysti
Fyrstu tveir riðlar Skólahreysti fóru fram í gær í Íþróttahöll Akureyrar í beinni útsendingu á RÚV. Í fyrri riðli öttu kappi átta skólar af Austur- og Norðurlandi og þar mætti m.a. Grunnskóli austan Vatna sem gerði sér lítið fyrir og sigraði.
„Það var sannarlega ljúft að sjá liðin koma til leiks eftir heldur skrítið ár. Við höfum alltaf glaðst yfir að sjá liðin streyma í íþróttahúsin en aldrei eins og nú,“ segir á Facebook-síðu Skólahreysti.
Í færslunni segir að nemendur austan Vatna hafi verið vel að sigrinum komnir og kærkominn þar sem þeir hafa vermt verðlaunapallinn nokkrum sinnum áður. Nú í fyrsta sinn í efsta sæti riðilsins og unnu sér þar með þátttökurétt í úrslitum.
Tíu skólar frá Akureyri og úr sveitum og bæjum í kring öttu kappi í seinni riðli dagsins sem var afar jafn og spennandi, eftir því sem kemur á síðu Skólahreysti. Það var lið Dalvíkurskóla sem náði sigrinum sem og réttinum til að keppa í úrslitum Skólahreysti 2021 sem fram fara 29. maí. Næstu riðlar fara hins vegar fram í Reykjavík 11. og 12. maí.
Þórunn Eyjólfsdóttir, íþróttakennari skólans, segir það ganga ótrúlega vel að æfa fyrir keppnina þrátt fyrir að þær fari fram í litlu félagsheimili þar sem aðstaðan sé ekki góð. „En við gerum bara gott úr því sem við höfum. Krakkarnir hafa haft mikinn áhuga og þau eru mjög dugleg og áhugasöm, æfa mikið og leggja sig alltaf fram og það skilar sér.“
Beðin um að rifja upp helsta árangur skólans segist Þórunn telja rétt hjá sér að þrisvar hafi 2. sæti náðst, einu sinni hvort sæti 3. og 4. og einu sinni lent neðar frá því hún gerðist íþróttakennari við skólann.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.