Gríðarlega mikilvægur leikur í kvöld þegar KR mætir í Síkið – Pétur lofar þristum
Í kvöld fer fram afar mikilvægur leikur í Subway deildinni í körfubolta þegar Tindastóll tekur á móti KR í tví frestuðum leik en hann átti fyrst að fara fram 20. janúar en þá kom upp Covid-smit í liði Tindastóls og síðar var honum frestað vegna ófærðar. Fyrir leikinn er Tindastóll í 7. sæti en KR sæti neðar en á einn leik til góða. Leikur liðanna í fyrri umferð, sem fram fór syðra um miðjan október, var hörkuspennandi og endaði með sigri Stóla 83 stig gegn 82. Það er því ljóst að Vesturbæingar ætla ekki tómhentir heim í kvöld og vilja vinninginn í innbyrðisbaráttunni sem er mjög dýrmæt þessa dagana.
Stólarnir hafa sýnt góða takta undanfarið og áttu hörkuleik seinasta föstudag þegar þeir lögðu Stjörnuna í Síkinu eftir mikla og góða baráttu. Pétur Rúnar Birgisson stjórnaði sínum mönnum eins og herforingi og segist hann lítast vel á leikinn í kvöld.
„Þetta verður spennandi leikur og við ætlum að halda uppteknum hætti frá síðasta leik. Þeir eru alltaf verið skemmtilegir leikirnir milli Tindastóls og KR, við erum á svipuðum stað í deildinni og ég býst við að þetta verði bara gaman. Þetta hafa verið svakalegir leikir undanfarin ár og eigum við ekki bara að segja að það verði engin breyting á því núna,“ segir Pétur.
Er einhver öðruvísi stemning í hópnum gegn KR en öðrum liðum?
„Nei, ekkert þannig. Þeir hafa náttúrulega unnið þetta oftar en öll önnur lið og það er kannski meiri stemning þess vegna. En nei ekki þannig.“
Greina má mikla ánægju hjá stuðningsmönnum Stóla að Pétur er kominn í sína gömlu herforingjastöðu eftir mannabreytingar um áramót og stýrir liðinu einatt af mikilli röggsemi og segist hann ánægður með það. „Já, þetta er búið að vera fínt. Komnar fleiri mínútur en það er ekki eins og ég hafi ekki gert þetta áður. Þetta er bara stemmning,“ segir Pétur og er ánægður með að áhorfendur séu glaðir og vonast hann til það verði áfram.
Það er gömul klisja að áhorfendur geti verið ígildi sjötta mannsins inn á vellinum en Pétur segir þetta svínvirka. „Já, klárlega, maður áttaði sig minna á því fyrir Kóvid en eftir að hafa upplifað tóma stúku þá sér maður að það getur breytt öllu að hafa fólk í stúkunni og hafa það með sér. Gífurlegur munur!“
Ætlar þú að lofa troðslu eins og Viðar fyrir síðasta leik?
„Ég skal gera mitt besta. En kannski betra að lofa þristi. Ég skal lofa að setja tvo til að vera öruggur.“
Þá er bara að fjölmenna í Síkið og styðja drengina til sigurs. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.