Grátlegt jöfnunarmark Vestra fyrir vestan

Fannar Kolbeins gerði fyrra mark Stólanna fyrir vestan. Hér er hann í leik gegn Seyðfirðingum fyrr í sumar. MYND: ÓAB
Fannar Kolbeins gerði fyrra mark Stólanna fyrir vestan. Hér er hann í leik gegn Seyðfirðingum fyrr í sumar. MYND: ÓAB

Baráttan í 2. deildinni í knattspyrnu heldur áfram og Tindastólsmenn voru nálægt því að krækja í öll þrjú stigin sem í boði voru gegn Vestra á Ísafirði á laugardaginn. Vestfirðingarnir tóku hins vegar upp á því að jafna leikinn á 94. mínútu og liðin fengu því sitt stigið hvort. Lokatölur 2-2.

Fallbaráttan í 2. deildinni er geysihörð að þessu sinni en fimm lið eru með 20 til 22 stig í sjöunda til ellefta sæti og hver sigur því gulls ígildi. Það var því ömurlegt að horfa upp á lið Vestra, sem er stigi fyrir neðan Stólana, ná að tryggja sér jafnteflið í uppbótartíma og langt frá því að vera í fyrsta skipti í sumar sem lokamínúturnar reynast Stólunum dýrkeyptar. Ef enginn væri uppbótartíminn í boltanum þá væri Tindastóll sennilega að berjast á hinum enda deildarinnar.

Tindastólsmenn voru með 2-0 forystu í hálfleik en Fannar Örn Kolbeinsson kom Stólunum yfir á 17. mínútu. Tíu mínútum síðar gerðu heimamenn í Vestra sjálfsmark og staða Stólanna því vænleg. Viktor Júlíusson minnkaði muninn á 70. mínútu og það var síðan þegar fjórar mínútur voru liðnar af uppbótartímanum sem Gilles Daniel Mbang Ondo jafnaði metin.

Nú eru fjórar umferðir eftir í deildinni og næsti leikur er hér heima nk. laugardag en þá kemur lið Víðis í Garði í heimsókn. Lið Víðis kom upp úr 3. deildinni með Stólunum síðasta haust en þeir eru nú að berjast fyrir sæti í 1. deild og því má reikna með baráttuleik á laugardaginn. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir