Gott stig sótt í Garðabæinn

Aliu Djalo, hér annar frá hægr, fagnar marki með félögum sínum fyrr í sumar. Hann gerði mark Kormáks/Hvatar í Garðabænum í gær. MYND: ÓAB
Aliu Djalo, hér annar frá hægr, fagnar marki með félögum sínum fyrr í sumar. Hann gerði mark Kormáks/Hvatar í Garðabænum í gær. MYND: ÓAB

Lið Kormáks/Hvatar spændi suður í Garðabæ í gær og lék í Miðgarði við lið heimamanna í KFG sem sátu á toppi 3. deildarinnar áður en 9. umferðin fór í gang. Húnvetningar hafa aftur á móti verið að berjast á hinum enda deildarinnar, náðu að vinna góðan sigur í síðustu umferð og nú nældu þeir í gott stig í Garðabæinn. Lokatölur reyndust 1-1.

Það var Aliu Djalo sem gerði fyrra mark leiksins strax á 12. mínútu fyrir Kormák/Hvöt og staðan 0-1 í hálfleik. Aðeins voru tvær mínútur liðnar af síðari hálfleik þegar Kári Pétursson jafnaði fyrir lið KFG og þar við sat.

Lið Húnvetninga er með tíu stig í 3. deildinni að loknum níu umferðum og er í níunda sæti deildarinnar. Liðið hefur unnið þrjá leik, gert eitt jafntefli en tapað fimm leikjum. Deildin er jöfn og spennandi og þannig er liðið í sjötta sæti með 13 stig og því stutt upp í efri hluta deildarinnar fyrir Aco Pandurevic, þjálfara Kormáks/Hvatar, og hans lærisveina.

Næsti leikur Húnvetninga er nú á þriðjudagskvöld á Blönduósvelli en þá mætir lið Augnabliks í heimsókn en það aðeins stigi ofar en Kormákur/Hvöt. Góður stuðningur gæti því hjálpað til við að krækja í þrjú stig og því um að gera að fjölmenna á völlinn.

Nýr markvörður til liðs við Kormák/Hvöt

Húni.is segir frá því að meistaraflokksráð Kormáks/Hvatar hafi gengið frá samningum við markmanninn Antonio Jose Fernandez Garcia og kemur hann frá liðinu Mouleno sem nýlega vann sig upp um deild á Spáni. „Gælunafn leikmannsins er Patas og fetar hann í fótspor margra sveitunga sinna frá Murcia héraðinu á Spáni en meistaraflokksráðið hefur sótt þangað marga góða leikmenn undanfarin ár,“ segir jafnframt á Horninu góða.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir