Gestaheimsókn - Framtíðarhópur Tokyo 2020

Helgina 21. – 23. apríl sóttu góðir gestir Sunddeild Tindastóls heim. Gestirnir voru afrekshópur unglinga í sundi (14-17 ára) Framtíðarhópur Tokyo 2020 sem undirbýr sig nú fyrir Ólympíuleika 2020. Með hópnum voru 3 þjálfarar. Æfingar hópsins í þessari ferð hófust á Blönduósi á föstudagskvöld þar sem sundfélag staðarins, Hvöt, tók á móti þeim. Síðan var stefnan tekin á Krókinn þar sem hópurinn gisti í Húsi Frítímans.

Æfingar hófust svo klukkan 8 í Sundlaug Sauðárkróks og stóðu fram til 10 og gafst eldri iðkendum Sunddeildar Tindastóls þá tækifæri til að æfa með hópnum og njóta leiðsagnar afreksþjálfara auk þess sem yngri iðkendur komu til að fylgjast með æfingunni. Að æfingu lokinni var öllum boðið upp á skyr. Síðan héldu gestir tilbaka í bækistöðvarnar í Húsi Frítímans og heimamenn fylgdu þeim þangað. Þar fengu hóparnir frjálsan tíma saman fyrir og eftir hádegismat en í boði var pizzuhlaðborð frá Hard Wok sem komið var með á staðinn. Upp úr hádegi fóru hóparnir svo í inniaðstöðu Golfklúbbs Sauðárkróks (GSS) þar sem Kristján Jónasson tók á móti þeim. Móttökur voru frábærar og fengu allir að reyna sig við að pútta og slá í golfhermi staðarins. Var þetta fyrir flesta ný upplifun og vakti mikla kátínu. Sunddeildin þakkar Kristjáni innilega móttökurnar.

Seinni part dags gafst gestum okkar hvíld á meðan Ragnheiður Runólfsdóttir, einn þjálfari gestanna, gaf sér tíma með heimamönnum, sundiðkendum, þjálfara og foreldrum, til að ræða um sundíþróttina, markmið og leiðir til árangurs. Var það samtal bæði ánægjulegt og fræðandi. Það er virkilega fengur í að fá afreksfólk eins og hana í heimsókn, bæði fyrir iðkendur og þjálfara og ef til vill ekki síst fyrir foreldra. Hún benti t.d. á hve ríkur þáttur sund hefur alla tíð verið í okkar þjóðarmenningu og ekki eingöngu vegna þeirrar auðlindar sem heita vatnið okkar er heldur vegna náinna tengsla þjóðarinnar við sjóinn og sjómennskuna. Hún benti á mikilvægi heilbrigðs lífsstíls og mikilvægi þess að hugsa um næringu, hvíld og góðan svefn þegar íþróttir eru stundaðar. Hún ræddi um hin viðkvæmu unglingsár þegar kallað er á úr öllum áttum og freistingar margar og benti á að þá sé mikilvægt að hafa tamið sér heilbrigðan lífsstíl og hafa styrk til að taka ábyrgð á eigin vali. Hún ræddi einnig gildi þess að stunda íþrótt sem er í raun æfing fyrir lífið sjálft, æfing sem kennir allt frá stundvísi og samskiptum í það að kenna auðmýkt og einfaldlega það að vera góð og falleg manneskja. Ragnheiður sagði líka frá sjálfri sér og ferli sínum allt frá því hún var valin í landsliðið 14 ára gömul til þess sem hún starfar við í dag. Hún er einstaklega falleg manneskja og náði að heilla alla.

Kvöldverður var síðan snæddur í Húsi Frítímans og grillmeistarinn Stefán (foreldri) sá um að allir fengu gott af grilli og Þorgerður Eva þjálfari sá um meðlætið. Stefán og Jón (foreldri) sáu svo um uppvask og frágang eftir matinn og sýndu í verki að þar voru vanir menn á ferð og ber að þakka það. Voru allir saddir og kátir þegar lagt var upp í ferð á Hofsós til að fara í flot hjá Infinity Blue þar sem Auður Birgisdóttir frumkvöðull með flot í Skagafirði tók á móti hópnum.

Það má segja að ferðin í flotið á Hofsósi hafi verið toppurinn á góðum degi og í raun æfingaferð afrekshópsins í Skagafjörð. Hópurinn mætti í laugina liðlega 9 að kvöldi og ekki var komið myrkur þannig upplifunin var einstök. Þegar bregða tók birtu var eins og þoka legðist yfir er snjóflygsurnar svifu yfir laugargestum. Við slakandi tónlist, nudd og upplýsta laug þegar almyrkvað var orðið var nánast ekki hægt að yfirgefa laug og stað. En Auður bauð upp á sítrónudrykk á bakka og endaði ferðina vel með því að bjóða upp á veislubikar, heimagerðan dessert með skyri og músli. Auði og Þorgerði þjálfara sem sá um nuddið eru færðar þakkir fyrir ótrúlega flotta upplifun.

Það má segja að það sé einstakur heiður fyrir svo litla deild sem Sunddeild Tindastóls er að fá svona gesti í heimsókn. Þorgerður Eva Þórhallsdóttir, formaður deildarinnar og þjálfari, sá um alla skipulagningu á dagskrá hópsins og fórst það einstaklega vel úr hendi og innti hún gestgjafahlutverkið af hendi með sóma fyrir Skagafjörð. Þessi helgi var í  alla staði ánægjuleg og þakkar Sunddeildin góðum gestum innilega fyrir heimsóknina og óskar unglingum Framtíðarhóps Tokyo 2020 góðs gengis við undirbúing fyrir ÓL 2020 en eftirtaldir gestir komu til okkar.

Sundiðkendur Framtíðarhópur Tokyo 2020

Adele Alexandra B. Pálsson SH
Brynjólfur Óli Karlsson Breiðablik
Eydís Ósk Kolbeinsdóttir ÍRB
Jóhann Elín Guðmundsdóttir SH
Katarína Róbertsdóttir SH
Karen Mist Arngeirsdóttir ÍRB
María Fanney Kristjánsdóttir SH
Patrik Viggó Vilbergsson Breiðablik
Sunna Svanlaug Kristjánsdóttir SH
Tómas Magnússon KR

Sundþjálfarar

Arna Þórey Sveinbjörnsdóttir
Jacky Pellerin
Ragnheiður Runólfsdóttir

Við í Sunddeild Tindastóls munum að sjálfsögðu fylgjast með þessum sundiðkendum næstu árin og óskum þeim alls hins besta í undirbúningi sínum. Hvað framtíðin ber í skauti sér er óráðið en öll óskum við þess að eiga marga og flotta sundmenn á ÓL í Tokyo 2020 og ef til vill verða þar einhver nöfn sem við sjáum hér.

Í Hávamálum (e. 44) segir:

Veistu ef þú vin átt,
þann er þú vel trúir,
viltu af honum þó gott geta,
geði skaltu við þann blanda
og gjöfum skipta,
fara að finna oft.

Það mætti segja að boðskapur þessa erindis eigi vel við heimsókn þessara góðu gesta. Það er mikill styrkur fyrir sunddeildina okkar að mynda slík tengsl.

Þorgerður Ásdís Jóhannsdóttir

Meðstjórnandi í Sunddeild Tindastóls

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir