Frábær endurkoma Tindastóls í Ásgarði
Tindastóll sótti lið Stjörnunnar heim í Garðabæ í kvöld í síðasta leik ársins í Dominos-deildinni í körfubolta. Reiknað var með hörðum slag og það vantaði ekkert upp á það. Stjörnumenn höfðu yfirhöndina framan af og leiddu með 14 stigum í hléi en Stólarnir komu dýrvitlausir til leiks í síðari hálfleik og voru snöggir að jafna metin og voru síðan sterkari aðilinn þar til yfir lauk. Lokatölur 80-86 í Ásgarði þar sem Pétur Birgis var bestur.
Leikurinn fór líflega af stað og skyttur beggja liða fengu að spreyta sig. Pétur, Arnar og Viðar voru heitir hjá Stólunum en í liði Stjörnunnar voru Róbert, Tómas og Eysteinn atkvæðamestir. Stjörnumenn kláruðu fyrsta leikhluta betur og mestu munaði um flautuþrist frá Tómasi og staðan 28-23 fyrir heimamenn. Stólarnir voru arfaslakir í öðrum leikhluta. Sóknarleikurinn gekk brösulega og mikið um mistök. Virtust Stólarnir eitthvað annars hugar – kannski ætlað í jólainnkaup í Costco – og Stjörnumenn gengu á lagið, röðuðu niður körfum og fóru með 14 stiga forystu inn í leikhlé. Staðan 53-39.
Sem segir okkur að varnarleikur Tindastóls hafi ekki verið til fyrirmyndar. Israel Martin, þjálfari Stólanna, sagði kampakátur að leik loknum að hann vissi að liðið sitt gæti spilað frábæra vörn en sóknarleikurinn væri stundum meiri höfuðverkur. Hvoru tveggja hrökk í gang í byrjun þriðja leikhluta. Þristur og tvistur frá Arnari og þristur frá Pétri breyttu stöðunni strax í 53-47. Sherrad Wright svaraði með tveimur vítum en þristur frá Pétri sá til þess að Stólarnir voru komnir upp á táneglurnar og það hrikti í stoðum Stjörnumanna. Á fyrstu fimm mínútunum gerðu Stólarnir 20 stig en Stjarnan tvö og staðan skyndilega 55-59. Að sjálfsögðu fór fyrirliðinn af Fagranesætt fyrir sínum mönnum í varnarbaráttunni á þessum kafla en hann fékk sína fjórðu villu skömmu eftir þetta og leikurinn komst í meira jafnvægi á ný. Þegar þriðja leikhluta lauk munaði tveimur stigum, staðan 66-68 fyrir Tindastól.
Stjarnan náði forystunni á ný í byrjun fjórða leikhluta, 70-68, en fallegur þristur frá Arnari kom Stólunum aftur á bragðið og Pétur bætti við fimm stigum í kjölfarið. Stólarnir náðu 12 stiga áhlaupi, komust í 70-80, og eftir það var ljóst að róðurinn mundi reynast heimamönnum erfiður. Þá munaði talsvert um að Hlynur Bærings sá vart til sólar í leiknum, var aðeins kominn með eitt stig þegar sjö mínútur voru til leiksloka, og spiluðu Stólarnir frábæra vörn á hann. Það sem eftir lifði leiks reyndu heimamenn hvað þeir gátu til að koma sér inn í leikinn á ný en þrátt fyrir mistækan sóknarleik Stólanna síðustu fimm mínútur leiksins þá hélt vörnin vel og Stjarnan náði mest að minnka muninn í sex stig þegar rúm ein og hálf mínútu var til leiksloka. Baráttudans var stiginn síðustu sekúndurnar og heimamenn reyndu að taka nokkur örvæntingarskot en voru aldrei nálægt því að minnka muninn frekar. Hester gulltryggði sigurinn með tveimur vítum skömmu fyrir leikslok, 78-86, og tvö víti frá Hlyni í lokin gerðu lítið til að kæta Stjörnumenn.
Góður sigur og frábær endurkoma Stólanna gladdi aftur á móti fjölmenna stuðningsmannasveit Tindastóls sem var mætt í Garðabæinn. Pétur var frábær í kvöld en það var augljóst að hann átti talsvert inni frá í síðustu leikjum. Hann var stigahæstur í Ásgarði með 26 stig og tók þar að auki flest fráköst Tindastólsmanna, sjö stykki. Hann var með sex þrista í ellefu tilraunum. Sigtryggur Arnar var ekki með skothöndina alveg nógu vel stillta í kvöld en hann skilaði engu að síður 17 stigum. Hester var með 12 stig og sex fráköst og aðrir leikmenn stóðu vel fyrir sínu en þó einkum og sér í lagi í síðari hálfleik þegar varnarleikurinn var í toppstandi. Og þegar vörnin smellur þá fylgja iðulega auðveldar körfur í kjölfarið.
Að lokinni fyrri umferð Dominos-deildarinnar eru fjögur lið efst og jöfn með 16 stig; Haukar, KR, ÍR og Tindastóll. Það er því ekki annað að sjá en að skemmtunin haldi áfram eftir áramót og nú er bara að vona að Stólarnir nái að slípa leik sinn enn betur og haldi áfram á sigurbraut. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.