„Fótboltinn hefur alltaf verið stór hluti af lífi mínu“
Bryndís Rún Baldursdóttir, tvítug stúlka frá Sauðárkróki, hefur spilað fótbolta frá barnsaldri. Þegar hún flutti til London til að starfa sem au pair stúlka gat hún ekki hugsað sér að vera þar ytra í hálft ár án þess að vera spila fótbolta. Hún hafði samband við kvennalið Crystal Palace, þar sem hún býr, og var boðin velkomin í liðið.
Það má segja að Bryndís sé alin upp hjá Tindastóli en hún er dóttir Helgu Skúladóttur og Baldurs Reynis Sigurðssonar á Sauðárkróki. Bryndís spilaði með meistaraflokki kvenna 2010-2014 en lék með Fram á síðasta leiktímabili, eftir að hún flutti suður til Reykjavíkur.
Bryndís fór út í byrjun nóvember og hafði félagaskipti yfir í Crystal Palace í byrjun janúar og fékk þar af leiðandi leikheimild með þeim.
„Það er mjög gaman að spila með liðinu hérna úti. Þær eru góðar og spila flottan fótbolta. Þær leggja mikla vinnu í fótboltann og koma allar vel undirbúnar og klárar á æfingar til að gera sitt besta fyrir sig og liðið. Þetta er góð reynsla fyrir mig að æfa með stórum hópi þar sem eru margir mjög góðir leikmenn og góð æfingaaðstaða,“ segir Bryndís Rún.
Feykir spjallaði við Bryndísi og má lesa viðtalið í blaði vikunnar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.