Eyjapiltar höfðu betur á Blönduósi

Ingvi Rafn gerði mark Kormáks/Hvatar í gær. Þessi mynd er frá því fyrr í sumar. MYND: ÓAB
Ingvi Rafn gerði mark Kormáks/Hvatar í gær. Þessi mynd er frá því fyrr í sumar. MYND: ÓAB

Fyrsti leikurinn á Blönduósvelli þetta sumarið fór fram í gær þegar lið Kormáks/Hvatar tók á móti KFS úr Vestmannaeyjum. Lið Eyjapilta reyndist Tindastólsmönnum erfitt viðureignar í 3. deildinni í fyrra og það fór svo að Húnvetningar lentu sömuleiðis í basli með vel spilandi gestina og máttu þola tap, lokatölur 1-2.

Það var Eyþór Orri Ómarsson sem kom liði KFS yfir á 35. mínútu og staðan 0-1 í hálfleik. Lið Kormáks/Hvatar jafnaði metin á 60. mínútu með marki Ingva Rafns Ingvarssonar en stundarfjórðungi fyrir leikslok gerði Magnús Sigurnýjas Magnússon sigurmark gestanna.

Húnvetningar hafa nú mátt þola tvö svekkjandi 2-1 töp í röð í 3. deildinni en það er þó sannarlega hvetjandi að leikir liðsins eru jafnir og spennandi. Sem stendur er lið Kormáks/Hvatar með sex stig í 7.-9. sæti deildarinnar en með hagstæðara markahlutfall en lið KFS og Vængja Júpíters sem eru með jafn mörg stig. Efst eru lið Dalvíkur/Reynis og KFG sem bæði eru með 12 stig. Næst mæta Húnvetningar liði Víðis í Garði nk. laugardag.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir