Enn er beðið eftir lokaniðurstöðum lækna vegna Bess

Baldur Þór fer yfir málin. MYND: HJALTI ÁRNA
Baldur Þór fer yfir málin. MYND: HJALTI ÁRNA

Það má kannski segja að gengi körfuboltaliðs Tindastóls í Subway-deildinni sé beintengt við púlsinn í samfélaginu hér á Króknum. Í síðasta sigurleik gegn ÍR sat Javon Bess meiddur á bekknum og óvíst um framhaldið hjá honum og má fullyrða að þá hafi skapast svokallaður óróapúls meðal stuðningsmanna Tindastóls.

Feykir sendi nokkrar spurningar á Baldur Þór Ragnarsson, þjálfara Stólanna, og spurði út í Bess og bætingu liðsins í síðustu leikjum.

Nú eru örugglega margir sem hafa áhyggjur af Javon Bess. Hvað hrjáir kappann og hvernig eru horfurnar með hann? „Það myndaðist bólga í ristinni á honum og var haldið að það væri útfrá skrúfu sem væri komin á hreyfingu sem var sett í hann fyrir sjö árum þegar hann fótbrotnaði. Við erum enn að bíða eftir lokaniðurstöðum frá læknum en við erum bjartsýn á að hann verði í lagi miðað við fyrstu skoðun.“

Ef sú staða kemur upp að hann geti ekki spilað meira á lið Tindastóls einhvern möguleika á að næla í annan bandarískan leikmann fyrir úrslitakeppnina? „Þar sem félagaskiptaglugginn er lokaður hjá KKÍ er ómögulegt að bæta við sig nýjum leikmanni út þetta leiktímabil.“

Hver finnst þér hafa verið helsta breytingin á spilamennsku Tindastóls í síðustu leikjum? „Við höfum hitt betur, Arnar og Pétur hafa bætt við sig snúning. Varnarleikurinn hefur verið betri. Svo er einbeiting og orka til staðar í öllum þessum leikjum. Einnig höfum við fundið fyrir stuðningi frá samfélaginu og hann gefur okkur extra power.“

Hvernig sérð þú úrslitakeppnina fyrir þér – eigum við möguleika á að ná langt? „Ef við spilum okkar besta bolta sóknar- og varnarlega, fáum mikinn stuðning úr stúkunni, þá getum við farið langt,“ segir Baldur Þór að lokum. Næsti leikur Tindastóls verður hér heima 24. mars þegar Keflvíkingar banka upp á.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir