Enn einn stórleikurinn hjá Maddie í mikilvægum sigri á Stjörnunni

Stólastúlkur hæstánægður að loknum góðum sigri í dag. MYND AF FB KKD. TINDASTÓLS
Stólastúlkur hæstánægður að loknum góðum sigri í dag. MYND AF FB KKD. TINDASTÓLS

Tindastóll og Stjarnan mættust í 1. deild kvenna í körfubolta í Síkinu í dag og var um hörkurimmu að ræða. Leikurinn var allan tímann jafn og spennandi en lið Tindastóls átti góðan kafla í upphafi fjórða leikhluta, náði þá átta stiga forystu sem lið gestanna náði aldrei að saxa alla leið niður þrátt fyrir nokkur áhlaup. Þær réðu einfaldlega ekki við Maddie Sutton sem var í banastuði hjá Stólastúlkum og endaði leikinn með 62 framlagspunkta sem er sjaldséð tala. Lokatölur 84-77 og mikilvægur sigur í baráttunni um sæti í úrslitakeppni 1. deildar.

Gestirnir komust í 3-10 eftir rúmlega tvær mínútur en þá skelltu Stólastúlkur í lás í vörninni og fimm míinútur liðu þangað til Stjarnan bætti við körfu en þá var staðan orðin 16-10. Staðan var 22-17 að loknum fyrsta leikhluta og mestur varð munurinn átta stig snemma í öðrum leikhluta eftir sniðskot frá Evu Rún, 31-23. Þá hófu Stjörnustúlkur að saxa á forskotið og þegar tvær og hálf mínúta var til leikhlés höfðu þær minnkað muninn í eitt stig, 35-34, en þristur frá Önnu Karen jók muninn á ný. Karfa frá Evu Rún jók muninn í átta stig en Stjarnan gerði síðustu sex stig fyrri hálfleiks á síðustu mínútu annars leikhluta og minntu rækilega á að hægt er að snúa við körfuboltaleik á örskömmum tíma. Staðan 42-40 í hálfleik.

Elva Lára Sverrisdóttir hóf síðari hálfleik með því að setja niður þrist og koma gestunum yfir. Næstu mínútur var allt í járnum en rétt fyrir miðjan leikhlutann náði Stjarnan fimm stiga forskoti. Stólastúlkur voru snöggar að jafna og tvær mikilvægar körfur frá Ingibjörgu Fjólu komu liði Tindastóls yfir en aðeins munaði einu stigi, staðan 61-60, þegar fjórði leikhluti hófst. Þá voru það heimastúlkur sem mættu baráttuglaðari til leiks og gerðu fyrstu sjö stigin; fyrst Eva, þá setti Ingigerður ísköld niður þrist áður en Maddie skilaði íleggju rétta leið. Vörn Tindastóls var góð en bæði lið gerðu slatta af mistökum enda spennustigið hátt. Stólastúlkur héldu sex til níu stiga forystu þangað til rúm mínúta var eftir en þá náði Elva Lára að stela boltanum, fékk víti og minnkaði muninn í fimm stig, 78-73. Nú reyndist Maddie drjúg en gestirnir neyddust til að brjóta ítrekað á henni og senda á vítalínuna og þar gerði hún ekki mörg mistök.

Eftir smá drama á lokasekúndunum fór vel á því að Maddie kláraði leikinn fyrir Stólastúlkur. Hún gerði 43 stig í leiknum, tók 29 fráköst og þar af 15 í sókn en auk þess átti hún sex stoðsendingar og fisktaði 15 villur. Kallað er eftir því að hún verði sameinuð Skagafirði hvernig svo sem sameiningarkosningar Akrahrepps og Skagafjarðar fara. Eva Rún átti sömuleiðis fínan leik, gerði 17 stig en hún gerði átta körfur í ellefu skotum innan teigs. Anna Karen, Fanney María og Ingigerður voru allar með sex stig í leiknum. Í liði Stjörnunnar var Diljá Ögn stigahæst með 26 stig en Elva Lára skilaði 17 stigum.

Tölfræði á vef KKÍ >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir