Ekki þörf á framlengingu í Mustad-höllinni í Grindavík
Það voru nú flestir sem reiknuðu með að önnur viðureign Tindastóls og Grindavíkur, sem fram fór í gærkvöldi, yrði mikill baráttuleikur og jafnvel æsispennandi. Stólarnir mættu hinsvegar vel stemmdir í leikinn og baráttan var að mestu þeirra því leikurinn var ekki verulega spennandi þegar á leið þar sem heimamenn í Grindavík voru hreinlega ekki á sömu blaðsíðu og Stólarnir. Þegar upp var staðið höfðu okkar menn sigrað með 31 stigs mun. Lokatölur 83-114.
Eins og lög og reglur gera ráð fyrir var jafnt í byrjun, 0-0, en síðan kom Hester Stólunum í 0-3 og ef við vildum gera langa sögu mjög stutta þá hélt lið Tindastóls forystunni til leiksloka. Barátta og varnarleikur gestanna virtist strax fara heldur illa í heimamenn og nú gekk vel að loka á Bullock og Sigga Þorsteins. Þeir komust hreinlega aldrei í takt við leikinn og enduðu með samanlagt 18 stig og 13 fráköst. Bæði lið voru að hitta illa til að byrja með og Stólarnir gátu nánast leyft sér að vera kærulausir í sókninni því heimamenn virtust heillum horfnir. Tindastóll komst í 2-7 og þristur frá Björgvini breytti stöðunni í 10-18. Eina áhyggjuefni Stólanna var að nokkrir leikmanna liðsins, þá helst Arnar, Helgi Viggós og Viðar, voru að fá dæmdar á sig óþarflega margar villur, en það virtist þó ekki valda Israel Martin miklm áhyggjum. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 14-20 og síðan var slegið upp 3ja stiga veislu í byrjun annars leikhluta. Óli Óla byrjaði á því að laga stöðuna fyrir Grindvíkinga en í kjölfarið fylgdi þristur frá Axel, þristar frá Arnari (plús eitt víti) og einn til frá Axel. Staðan orðin 21-33 og einhvern veginn var eins og tónninn væri sleginn fyrir leikinn. Grindvíkingar komu með smá áhlaup og Stólarnir negldu þá aftur niður með góðum sóknarleik. Það var eins og leikurinn væri allur miklu auðveldari fyrir Stólana á meðan heimamenn voru að ströggla í flestum sínum aðgerðum. Staðan í hálfleik 39-48.
Grindvíkingar hengdu haus
Grindvíkingar náðu upp ágætri baráttu í byrjun síðari hálfleiks og Dagur Kár, sem var bestur heimamanna, minnkaði muninn í fimm stig, 51-56, rétt fyrir miðjan þriðja leikhluta. Arnar svaraði með þristi og Stólarnir voru mínútu síðar komnir með tíu stiga forystu og mínútu eftir það munaði 15 stigum. Dagur Kár hélt Grindvíkingum inni í leiknum á þessum kafla en að loknum þriðja leikhluta var staðan 63-78 og það er óhætt að segja að heimamenn hreinlega gáfust upp þegar þarna var komið sögu. Leikur þeirra var tilviljanakenndur í sókninni og varnarleikurinn var hreinlega ekki fyrir hendi. Stólarnir fengu hreinlega að skjóta að vild, óáreittir, og gerðu 36 stig í fjórða leikhluta gegn 20 stigum heimamanna. Stór hluti áhorfenda í Mustad-höllinni var mættur til að hvetja Stólana og þeir höfðu aldeilis tilefni til að tjútta og tralla undir toppleik Tindastólsmanna.
Talsvert var gert úr slökum leik Grindvíkinga eftir leik í gærkvöldi en það verður að segjast eins og er að Tindastólsmenn komu mun ákveðnari til leiks nú en í fyrsta leiknum í Síkinu. Martin var búinn að fínstilla leik liðsins og Grindvíkingar fundu ekki svör við leik Stólanna. Hester fór hamförum í gær og setti niður 13 af 17 skotum sínum í leiknum og endaði með 28 stig og sjö fráköst. Þá lék Sigtryggur Arnar við hvurn sinn fingur og skilaði 26 stigum. Pétur var traustur að vanda með ellefu stig og sjö stoðsendingar. Það munaði hins vegar miklu í gær að fleiri leikmenn stigu upp í stigaskorinu en í fyrsta leiknum og þar fór fremstur í flokki Axel Kára sem setti niður fimm af sjö 3ja stiga skotum sínum og þegar hann dettur í þennan gír þá standast ekki mörg lið Stólunum snúning. Davenport kláraði leikinn með níu stig og fimm fráköst , Hannes og Björgvin gerðu sjö stig hvor, Helgi Viggós setti fimm stig og hirti sjö fráköst, Helgi Margeirs poppaði upp með ekki svo óvæntan þrist og Friðrik kláraði leikinn með því að setja eitt víti niður.
Dagur Kár var með 22 stig fyrir lið Grindavíkur og Óli Óla bætti 17 í sarpinn en aðrir voru að spila undir getu.
Frétt af Vísir.is > Fögnuðu sigri með mjólk og samloku
Israel Martin var ánægður með leik sinna manna en hann taldi ástæðuna fyrir sigrinum þríþætta; Stólarnir hefðu tapað fáum boltum (10), áttu 24 stoðsendingar og unnu frákastabaráttuna (40/48). Þar fyrir utan hittu Stólarnir mun betur en Grindvíkingar þegar upp var staðið en í fyrri hálfleik var tölfræðin ansi jöfn þó svo að Stólarnir væru með ágætt forskot. Nú er staðan í einvígi liðanna 2-0 fyrir Tindastól og þriðji leikurinn verður hér í Síkinu á föstudaginn kl. 19:15. Ljóst er að Stólarnir verða að koma til leiks einbeittir og vinnusamir því Grindvíkingar verða sárir eftir leikinn í gær og eru örugglega ekki spenntir fyrir að fara í sumarfrí í vorbyrjun.
Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.