Einar Ísfjörð, Jón Gísli og Sigurður Pétur til reynslu hjá Örgryte

Jón Gísli, Einar Ísfjörð og Sigurður Pétur á sænskri grundu. MYND: TINDASTÓLL.IS
Jón Gísli, Einar Ísfjörð og Sigurður Pétur á sænskri grundu. MYND: TINDASTÓLL.IS

Þessa dagana eru þrír leikmenn Tindastóls á reynslu hjá sænska liðinu Örgryte IS sem leikur í næstefstu deild þar í landi. Leikmennirnir sem um ræðir eru Einar Ísfjörð Sigurpálsson (2005), Jón Gísli Stefánsson (2004) og Sigurður Pétur Stefánsson (2003) en þeir hafa allir nýverið skrifað undir tveggja ára samning við Tindastól í fótboltanum. Þeir munu æfa með U19 ára liði Örgryte, mæta á sem æfingar og spila 1 æfingaleik.

Fram kemur í frétt á Tindastóll.is að ferð strákanna er partur af spennandi samstarfi sem Tindastóll er að byggja upp með Örgryte sem er gamalgróið atvinnumannafélag i Svíþjóð. Samstarf sem verður síðan þróað í sameiningu á næstu árum.

„Þetta er virkilega spennandi ferð fyrir þessa flottu leikmenn. Allir hafa þeir lagt gríðarlega hart að sér og lagt mikinn metnað í æfingar og uppskera eftir því,” segir Donni, þjálfari meistaraflokka Tindastóls og yfirmaður knattspyrnumála. „Við viljum hjálpa öllum okkar leikmönnum að eiga möguleika á að taka næsta skref á ferlinum. Það verður gaman að heyra hvernig drengirnir upplifa það að æfa við bestu aðstæður og hvernig þeir taka þá reynslu með sér á næstu mánuðum og árum,” segir Donni í fréttinni.

Þess má til gamans geta fyrir þá sem ekki koma þessum köppum fyrir sig að Einar Ísfjörð er Króksari, sonur Sigga Dodda og Kristínar Elfu Magnúsdóttur. Bræðurnir Jón Gísli og Sigurður Pétur eru frá Blönduósi, synir Stefáns Ólafssonar hæstaréttarlögmanns og Erlu Ísafoldar Sigurðardóttur póstmeistari á Blönduósi. Erla Ísafold er dóttir Sigurðar Hermanssonar frá Blönduósi og Sigfríðar Jónsdóttur frá Vestmannaeyjum. Hún spilaði áður með Hvöt við góðan orðstýr sem vinstri bakvörður og þótti hörð í horn að taka. Samkvæmt innherjaupplýsingum Feykis heldur hún því fram að hæfileikar drengjanna á knattspyrnusviðinu komi frá sér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir