Donni ánægður með leik Tindastóls þrátt fyrir tap í Mjólkurbikarnum
Það var leikið í Mjólkurbikarnum á Sauðárkróksvelli í dag en þá mætti lið Tindastóls grönnum sínum í Knattspyrnufélagi Fjallabyggðar (KS og Leiftur) en þetta var síðasti leikurinn í fyrstu umferð keppninnar. Nokkur munur hefur verið á gengi liðanna síðustu misserin, Stólarnir komnir í 4. deildina en lið KF verið að gera sig gildandi í 2. deildinni. Það kom á daginn að gestirnir voru sterkari í rigningunni á Króknum og skunduðu áfram í 2. umferða eftir 0-4 sigur.
Sævar Þór Fylkisson gerði fyrsta mark leiksins á 36. mínútu og hann bætti öðru marki við á 44. mínútu og staðan 0-2 í hálfleik. Á 53. mínútu bætti Marinó Snær Birgisson við þriðja marki KF og það var síðan Ingvar Gylfason sem smurði glassúrnum á snúðinn með marki á 87. mínútu. Lið Tindastóls því úr leik í Mjólkurbikarnum.
„Ég er heilt yfir mjög ánægður með leikinn i heild sinni og spilamennskan var góð,“ sagði Donni þjálfari þegar Feykir spurði út í leikinn. „Við héldum boltanum virkilega vel á stórum köflum og létum hann ganga vel á milli manna. Við sköpuðum ítrekað þær leikstöður sem við viljum komast í en það vantaði að reka endahnútinn á sóknirnar og það munum við fara vel yfir fram að móti. KF voru hins vegar líka slyngir og nýttu sér þær opnanir sem við gáfum þeim í tvígang í fyrri hálfleik og eiga þar af leiðandi sigurinn eðlilega skilið. Við erum lið í mótun og það tekur tíma, það byrjuðu til dæmis fjórir strákar á 2. fl. aldri og stóðu sig vel. Við erum á réttri leið og það er aðalatriðið.“
Á eftir að styrkja hópinn hjá strákunum frekar fyrir keppni í 4. deildinni eða ertu kominn með lið sem þú treystir til að klífa upp um deild? „Við stefnum á að bæta við okkur einum sóknarmanni, annars er ég virkilega ánægður með hópinn og við verðum klárlega tilbúnir í að klífa upp um deildir ef menn halda áfram að læra og leggja á sig þá vinnu sem þarf.“
Hvernig gekk æfingaferð meistaraflokka Tindastóls til Portúgals og hvað gefur svona ferð liðunum? „Æfingaferðin var hreinlega stórkostleg. Frábærar aðstæður, gott veður og frábærlega samheldin hópur. Svona ferð gefur okkur mjög mikið. Við æfðum mjög vel eða ellefu æfingar á þessum sjö dögum. Gátum farið yfir ákveðin taktísk atriði í ró og næði. En aðalmálið er að fá tíma saman til að skapa þá liðsheild sem þarf til að ná árangri og þar finnst mér hafa tekist einstaklega vel til,“ sagði Donni og bætti við: „Vil svo koma sérstökum þökkum til Erlings B. Jóhannessonar fyrir boltagjöfina – boltarnir eru mjög góðir og fengu eldskírn í leiknum i dag. Einnig til Lísu Loftsdóttir fyrir þessa glæsilegu ferðaboli sem við notuðum mikið i Portúgal. Við eigum auðvitað fjölmarga styrktar - og stuðningsaðila og án ykkar væri nú lítið hægt að gera – svo kærar þakkir til ykkar allra!“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.