Blásið til leiks í C-riðli 4. deildar Íslandsmótsins

Glæsilegt lið Kormáks/Hvatar sem tekur þátt í 4. deild íslandsmótsins í knattspyrnu. Mynd: Aðdáendasíða liðsins.
Glæsilegt lið Kormáks/Hvatar sem tekur þátt í 4. deild íslandsmótsins í knattspyrnu. Mynd: Aðdáendasíða liðsins.

Knattspyrnusumarið í Húnaþingum hófst sunnudaginn 21. maí þegar blásið var til leiks í C-riðli 4. deildar Íslandsmótsins. Sameiginlegt lið Kormáks/Hvatar mætir til leiks með nýtt blóð í bland við eldra, eins og síðastliðin ár, en þetta er fimmta árið sem hinir fornu fjendur frá Hvammstanga og Blönduósi mæta hönd í hönd til leiks í mótinu.

Andstæðingurinn í þessum fyrsta leik var lið Úlfanna, sem er framlag Fram til neðri deildanna, skipað leikmönnum sem hafa ekki tíma til að spila í næst-efstu deild með móðurskipinu, eða hafa ekki náð að komast almennilega í liðið. Þeir eru harðir í horn að taka og nokkur skapvond epli inn á milli.

Í liði Kormáks/Hvatar reimuðu á sig byrjunarliðsskó tveir nýir leikmenn sem héldu yfir Þverárfjallsveg í vetur og hafa ráðið sig í húnvetnska vist í sumar. Skagfirðingarnir Arnar Magnús markmaður og Arnar Skúli bakvörður byrja vel og manna tvær stöður sem hafa verið mikil rúlletta með undanfarin ár. Þeir lofa góðu eins og aðrar sendingar sem við höfum fengið að austan undanfarin ár. Til gamans má minnast á að þrír síðustu leikmenn sem hafa komið úr Skagafirði í Húnaflóann hafa allir heitið Arnar, og þó að það sé mjög fallegt nafn þá köllum við eftir auknum frumlegheitum hjá væntanlegum foreldrum þar eystra.

Hinir níu sem hófu leikinn hafa spilað með liðinu undanfarin ár. Þar eru menn eins og Hörður Gylfason sem hefur verið fyrirliði frá upphafi samstarfsins en hefur nú látið það af hendi vegna anna á öðrum vígstöðvum; bræðurnir Arnar Ingvi og Ingvi Rafn Ingvarssynir Magg, en þeir hafa verið valdir bestu menn liðsins til skiptis undanfarin ár; og svo Blönduósingurinn Óskar Vignisson sem hefur spilað hundruði leikja og skorað næstum hundrað mörk síðustu áratugi.

Gengi liðsins í vor var framúrskarandi, svo að helstu sparkspekingar þurftu að éta úldna sokka spádóma sinna eftir Lengjubikarinn. Þar fóru Húnvetningar í fjögurra liða úrslit, þar sem lúta þurfti í iðagrænt gras Borgarnesvallar í leik gegn erkifjendunum í Skallagrími. Í þeim leik vantaði fjöldamarga fastamenn í okkar lið, en ekki var hægt að gabba sig í gegnum það umsátur með sláturkeppakasti eins og í Borgarvirki hér forðum.

Íslandsmótið byrjaði vel. Leikurinn gegn Úlfunum vannst 3-2, þar sem körfuboltakappinn Ingvi Rafn skoraði tvö og lagði upp eitt. Fyrir vikið var hann valinn Sjávarborgarmaður leiksins, en samnefnt veitingahús á Hvammstanga hefur frá opnun sinni veitt besta manni hvers leiks sérstök verðlaun.

Sigurinn hefði sennilega átt að vera stærri og lokastaða meira í ætt við hokkíleik. Bæði lið fóru illa með nokkur færi, en þau húnvetnsku eru náttúrulega minnisstæðari og hin varla hálffæri í baksýnisspeglinum.

Næsti leikur Kormáks/Hvatar fer einnig fram í Reykjavík, þegar lið Kónganna tekur á móti okkur á Þróttaravellinum í Laugardal sunnudaginn 28. maí.

Þangað til og eftir það er hægt að fylgjast með ævintýrum liðsins á Aðdáendasíðu Kormáks/Hvatar á Facebook.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir