Árný Lilja tilnefnd sem sjálfboðaliði ársins á golfþingi GSÍ
Golfþing GSÍ verður haldið næstkomandi helgi á Fosshótel Reykjavík og verður dagskrá golfþingsins fjölbreytt sem fyrr. Ljóst er að næsti forseti GSÍ verður kona, í fyrsta sinn í sögu sambandsins þar sem Hulda Bjarnadóttir er sjálfkjörin. Tekur hún við af Hauki Erni Birgissyni. GSÍ óskaði eftir tilnefningum golfklúbba um sjálfboðaliða ársins 2021 og verður valið kynnt á þinginu en stjórn Golfklúbbs Skagafjarðar tilnefndi Árnýju Lilju Árnadóttir úr sínum röðum.
Að sögn Kristjáns Bjarna Halldórssonar, formanns GSS er Árný ein af mörgum sjálfboðaliðum klúbbsins sem gera starf þess mögulegt. Í greinargerð klúbbsins segir um Árnýju:
Árný hefur hefur staðið sig vel sem sjálfboðaliði í tugi ára með setu í nefndum og virkri þátttöku í starfinu.
Árið 2021 var engin undantekning nema síður sé. Árný Lilja þjálfaði í sjálfboðavinnu stærsta hóp sem komið hefur á nýliðanámskeið GSS. Svo mikil var aðsóknin að skipta þurfti nýliðahópnum í þrennt og var æft mánudaga og fimmtudaga í 5 vikur. Hún lét það ekki stoppa sig að handarbrotna þegar námskeiðið var ekki hálfnað heldur hélt hún ótrauð áfram og sýndi sveifluna með annarri hendi og hvatti nýliðana áfram. Árný hefur verið nýliðum mikil fyrirmynd enda bera þeir mikla virðingu fyrir henni. Mikil fjölgun hefur verið í Golfklúbbi Skagafjarðar undanfarin 3 ár og er það að miklu leyti frábærum nýliðanámskeiðum Árnýjar að þakka. Segja má að Árný hafi erft golfkennsluhæfileikana frá föður sínum, Árna Jónssyni, sem kenndi hjá m.a. GA og GSS. Árný Lilja starfar sem sjúkraþjálfari en golfkennsluna vinnur hún í sjálfboðavinnu. Segja má að öll fjölskyldan láti gott af sér leiða. Eiginmaður Árnýjar Lilju, Rafn Ingi, er fyrrum formaður GSS og svo eru synir hennar farnir að hjálpa til við kennsluna.
Árný hefur verið liðsstjóri kvennasveitar GSS sem keppt hefur í efstu deild kvenna undanfarin ár. Vegna handarbrotsins gat hún ekki spilað með sveitinni í sumar en sinnti starfi sínu sem liðsstjóri með stakri prýði.
Árný er ein af fáum dómurum GSS og lætur sitt ekki eftir liggja þegar óskað er eftir starfskröftum hennar til að dæma á opnum mótum GSS.
Árný lætur sig ekki vanta þegar GSS heldur opin mót barna og unglinga. Hún mætir til aðstoðar og fylgist vel með mótahaldinu.
Árný Lilja hefur einnig verið virk þegar konur GSS halda árlegt kvennamót þar sem saman koma konur úr golfklúbbum af Norðurlandi. Að þessu sinni gat hún ekki spilað vegna handarbrots en var mjög virk í undirbúningi mótsins. Á mótsdegi mætti hún fyrst kvenna, fór með rósir á alla teiga og vann að undirbúningi mótsins.
Til að toppa allt mætti hún til haustvinnu á vellinum þar sem hún og nokkrir karlar unnu gott verk við að saga niður tugi trjáa og færa í burtu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.