Arnar Geir í fyrsta sinn á Íslandsmótið í pílukasti

Íslandsmót í pílukasti var haldið helgina 14. og 15. maí síðastliðinn og mættu um 70 manns til að taka þátt, meðal þeirra var Arnar Geir Hjartarson sem keppti fyrir hönd pílu og bogfimideildar Tindastóls.
Í tilefni þess sendi blaðamaður Feykis Arnari nokkrar spurningar þessu tengdar.

Getur þú sagt mér aðeins frá þessu móti? Hversu margir keppa á svona móti? Hvað þarf til að taka þátt?

Þetta er mót sem haldið er einu sinni á ári, þar sem íslandsmeistarar í pílukasti eru krýndir. Þetta er haldið á Bullseye í Reykjavík, einum flottasta pílustað í Evrópu. Þetta er tveggja daga mót, þar sem fyrri daginn er spilaði í riðlum til að ákvarða röðun fyrir útsláttinn sem er spilaður seinni daginn.

Það var keppt í bæði karla og kvenna flokki og að þessu sinni voru 53 karlar skráðir og 15 konur. Einu skilyrðin til þátttöku eru að vera skráður í aðildarfélag Íslenska Pílusambandsins.

Á laugardeginum var þátttakendum skipt upp í 6-7 manna riðla og spiluðu þar allir við alla. Ég lenti í 7 manna riðli og vann alla 6 leikina mína, sem þýddi það að ég fór sjálfkrafa í gegnum fyrstu umferð á sunnudeginum og fór beint inní 32 manna úrslit, ég vann leikinn minn þar og gerði svo slíkt hið sama í 16 manna úrslitum. En í 8 manna úrslitum tapaði ég þrátt fyrir að spila minn besta leik í mótinu.

Ég er mjög ánægður með árangurinn í mótinu, en þetta var í fyrsta skiptið sem ég spila í Íslandsmóti í pílu. Ég er eiginlega nýbyrjaður að keppa í pílu, ég fór í mitt fyrsta mót í lok janúar og var þetta aðeins fjórða mótið sem ég tek þátt í.

Nú er nýstofnuð píludeild innan Tindastóls og hún og bogfimideildin voru færð í eina deild.

Já, deildirnar voru sameinaðar fyrir u.þ.b. ári síðan og var orðinn gildur meðlimur innan Íslenska Pílusambandsins núna rétt í kringum áramótin. Starfsemi innan deildarinnar hefur því miður ekki verið mikil og aðalástæðan fyrir því er aðstöðuleysi. Okkur alveg bráðvantar aðstöðu til að geta hýst starfsemina og geta leyft fleira fólki að koma og prófa. Okkur langar að geta haldið mót, fjölgað meðlimum og fjölga þátttakendum á mótum á vegum Íslenska pílusambandsins frá Tindastól.

Hvar æfir píludeildin og hvenær?

Það hafa ekki verið skipulagðar æfingar hingað til og enginn þjálfari til staðar. Lítill hópur hefur hist af og til í iðnaðarhúsnæði og spilað smá. En annars eru flestir að spila bara í skúrnum heima hjá sér.

Er pílukast að vaxa í vinsældum hérlendis?

Ég er mjög nýr í þessum heimi og hef aðeins stundað þetta í rúmt ár. En af öllum þeim sem ég hef rætt við sem hafa verið í þessu í lengri tíma tala um mjög mikla aukningu undanfarin ár. Má þar einna helst þakka útsendingu frá heimsmeistaramótinu, sem er alltaf spilað í kringum jólin. Ég vissi varla af þessu fyrr en ég sá þetta þar og langaði mikið að prófa og varð alveg heltekinn. Það eru margir í sömu sporum og ég, sáu þetta fyrst í sjónvarpinu og ákváðu að kaupa spjald.

Svo er þetta nú ein af fáu íþróttunum hægt hefur verið að stunda undanfarin tvö ár, án truflana, þannig það hefur einnig stuðlað að miklum vinsældum. Það er líka mjög auðvelt að byrja í þessu sporti og ekki dýrt, spjaldið kostar 10-15 þúsund og ágætis pílur í kringum 7 þúsund, annað þarf ekki til.

/IÖF

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir