Arctic Cat Snocross í Tindastólnum - á sunnudaginn!

MYND: ÁRNI MÁR ÁRNASON
MYND: ÁRNI MÁR ÁRNASON

Í hádeginu sunnudaginn 27. mars verður keppt í Arctic Cat Snocross á skíðasvæðinu í Tindastólnum – athugið breyttan keppnisdag. Þeir sem elska Formúlu, býflugnahljóð og benzínilm snemma að morgni ættu að skella sér í Stólinn og fylgjast með spennandi keppni. Samkvæmt upplýsingum Feykis er reiknað með um 40 þátttakendum á alvöru keppnissleðum en keppt verður í þremur flokkum.

Til stóð að keppnin færi fram á morgun, laugardag, en bæði var veðurspáin fyrir þann dag með versta móti, hitinn hátt í 10 gráður og vindurinn um 20 metrar úr suðri og þá hefur reynst að leggja brautina í dag sökum lélegs skyggnis. Veðurspáin er töluvert álitlegri fyrir sunnudaginn, hiti um frostmark og vindur 5-8 metrar að norðan.

Um er að ræða þriðju umferð til Íslandsmeistara þannig að það verða engir aukvisar sem munu þenja sleðana á morgun. Það er Mótorhjóla- og vélsleðasamband Íslands sem stendur fyrir mótinu en fimm mót eru á dagskrá á þessu keppnistímabili og hafa mót þegar farið fram á Ólafsfirði og Mývatni, nú er mótið á Króknum eða nánar tiltekið í Tindastólnum, en síðustu mótin verða á Akureyri og á Egilsstöðum.

Ef áhorfendur verða hungraðir þá þarf ekki að örvænta því Lemon verður á svæðinu með samlokur og sólskin í glasi. Þá má benda á að keppninni er streymt á netinu – væntanlega á YouTube – og ætti að vera hægt að leita undir LIVE SNOCROSS Á ÍSLANDI - ÞRIÐJA UMFERÐ.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir