Allt sjóðandi vitlaust í Síkinu þegar Stólarnir sigruðu ÍR
Það var drama og æsispenna í sjóðbullandi Síkinu í kvöld þegar lið Tindastóls og ÍR slógust um sæti í fjögurra liða úrslitum Maltbikarsins. Gestirnir úr Breiðholtinu virkuðu sterkari framan af leik og voru átta stigum yfir fyrir lokafjórðunginn en Stólarnir sættu sig ekki við tap í kvöld og komust inn í leikinn með rosalegri baráttu og góðum varnarleik og hrifsuðu sigurinn af ÍR-ingum á lokakafla leiksins. Það reyndist því aðeins meira Malt í Stólunum en ÍR að þessu sinni og lokatölur 78-74.
Leikurinn fór vel af stað og Stólarnir höfðu frumkvæðið með Arnar og Hester í fínu formi. Heimamenn komust í 16-10 en þegar Hester var skipt út fyrir Garrett þá var eins og gosið færi úr Stólunum. Þeir urðu alveg flatir, vörnin veiktist og sóknin varð stirð. ÍR-ingar gengu á lagið með Ryan Taylor og Matthías Orra í aðalhlutverkum og þeir voru yfir, 17-21, að loknum fyrsta leikhluta. Eftir þriggja mínútna leik í öðrum leikhluta var staðan orðin 19-32 fyrir ÍR og þá skipti Martin Hester aftur inn og meiri stöðugleiki komst á leik Stólanna. Gestirnir voru hins vegar fullir sjálfstraust og voru að hitta ágætlega, vel studdir af líflegum fylgisveinum í Síkinu. Hester gerði á skömmum tíma átta stig fyrir Stólana og þrjú víti frá Arnari minnkuðu muninn í tvö stig, 33-35, og þá tók Borce, þjálfari ÍR, leikhlé og það skilaði strax árangri. Kristinn Marinós og Danero Thomas gerðu næstu körfur en Garrett, sem aftur var kominn inn á og betur stilltur að þessu sinni, gerði fjögur stig í röð fyrir Stólana. ÍR átti hins vegar tvær síðustu körfurnar og þá síðustu ljótustu flautukörfu sem sést hefur í Síkinu. Þá fékk Kristinn Marinós boltann óvænt og honum gafst ekki einu sinni tími til að taka skotið sitt heldur kastaði boltanum eins og úr innkasti beint í körfu Tindastóls. Staðan 37-45 í hálfleik.
Lið Tindastóls var ekki sannfærandi í fyrri hálfleik. Sóknarleikurinn oft á tíðum stirður og hann var það áfram í síðari hálfleik og alltof oft náðu ÍR-ingar að koma í veg fyrir að Stólarnir næðu að klára sóknir sínar með skoti. Gestirnir voru því að spila góða vörn og ljóst að Stólarnir þurftu að herða talsvert á varnarleik sínum til að komast inn í leikinn. Það virtist ekki ætla að ganga framan af þriðja leikhluta. ÍR-ingar komust í 40-50 en Garrett náði að minnka muninn í fimm stig, 47-52, en þá kom góður kafli gestanna sem gerðu næstu átta stig. Á þeim tímapunkti benti fátt til annars en að Stólarnir væru að glutra niður Maltinu. En nú kom Axel Kára inn og fékk það hlutverk að stoppa Matthías Orra og það gerði hann frábærlega. Pétur gerði fyrstu körfu sína í leiknum á 27. mínútu og næstu tíu mínútur var hreinlega slegist um alla bolta og dómararnir stóðu í stórræðum og þurftu nokkrum sinnum að stöðva leikinn til að ráða ráðum sínum. Nú gekk hvorki né rak hjá gestunum og frá 27. mínútu til 37. mínútu gerðu þeir aðeins fjögur stig á meðan Stólarnir gerðu 22! Deja vu! Þetta var nánast eins og í leiknum gegn ÍR hér fyrr í haust nema þá voru það ÍR-ingar sem áttu svona kafla.
Stólarnir voru semsagt skyndilega komnir átta stigum yfir þegar þrjár mínútur voru eftir, staðan 72-64. Borce tók leikhlé og ÍR hóf að saxa á forskot Stólanna. Hvað eftir annað fór Matti á vítalínuna og hann skilaði öllu niður. Tindastólsmenn voru fyrir þennan lokakafla búnir að missa Pétur af velli með fimm villur en það virtist bara hvetja heimamenn til dáða. Þeir gerðu þó sitt besta til að hleypa spennu í leikinn með því að hitta illa af vítalínunni. Sem fyrr segir var Matti öruggur á línunni fyrir ÍR og hann gerði átta stig í röð og minnkaði muninn í tvö stig, 74-72, þegar 43 sekúndur voru eftir. ÍR-ingar brutu á Arnari þegar 25 sekúndur voru eftir og hann klikkaði ekki frekar en fyrri daginn. Hann jók muninn í fjögur stig og eftir að Ryan Taylor minnkaði muninn aftur í tvö stig kláraði Arnar leikinn af vítalínunni þegar 13 sekúndur voru eftir því gestirnir náðu ekki að skapa sér færi í lokin og leiktíminn rann út.
Þvílíkt sætur sigur í kvöld og stemningin lengstum rafmögnuð og gaman að hafa hressa ÍR-inga í Síkinu. Það var því bæði barist á parketinu og á pöllunum. Gestirnir sýndu og sönnuðu að það er mikið í liðið spunnið en í kvöld voru Tindastólsmenn ekki tilbúnir að tapa þriðja leiknum í röð. Það var frábært að sjá menn berjast í gegnum oft á tíðum erfiðan leik með því að stilla varnarleikinn upp í ellefu. Enda varð allt tryllt og tjúllað í leikslok og báðir stuðningsmannahóparnir fögnuðu sínum mönnum. En í kvöld voru það Stólarnir sem fóru með sigur af hólmi og tryggðu sér sæti í fjögurra liða úrslitum Maltbikarsins.
Arnar var magnaður í kvöld en kappinn virtist lengstum vera að spila meiddur. Hann er ekki feiminn við að skjóta og það er fátt sem slær hann út af laginu. Hversu dýrmætt er að hafa svoleiðis kempu í sínu liði? Hann endaði stigahæstur með 26 stig og átta stoðsendingar. Hester virtist kominn í formið og skilaði 24 stigum en Garrett setti niður 11. Helgi Rafn, Axel og Hannes fráköstuðu vel og voru að spila frábæra vörn. Stólarnir voru ekki að skjóta vel fyrir utan, voru 23% á meðan ÍR var 38%, en Stólarnir unnu frákastabaráttuna og vörðu körfuna sína vel.
Nú er ljóst hvaða fjögur lið eru komin áfram í fjögurra liða úrslit en það eru lið KR, Hauka, Breiðabliks og Tindastóls. Berjast Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.