Akureyringarnir höfðu betur í baráttunni um Norðurland
Það var hörkuleikur í 1. deild kvenna í körfunni í dag þegar lið Tindastóls tók á móti baráttuglöðum Þórsurum í Síkinu. Akureyringarnir höfðu unnið fyrri leik liðanna á Akureyri fyrr í vetur í spennuleik og ekki var leikurinn í dag minna spennandi og endaði með því að fara í framlengingu. Þar reyndist tankurinn tómur hjá Tindastóli og lið Þórs, með Sylvíu Rún Hálfdanardóttur í banastuði, sigraði næsta örugglega. Lokatölur 80-89 eftir að staðan var 78-78 að loknum venjulegum leiktíma.
Leikurinn fór vel af stað. Tess Williams og Marín Lind fóru fyrir liði Tindastóls, sem komst í 7-3, en Þórsarar komu til baka og náðu undirtökunum í leiknum. Sylvía Rún kom liði Þórs í 13-21 en staðan að loknum fyrsta leikhluta var 18-23. Körfur frá Tess og Marín Lind snéru dæminu við snemma í öðrum leikhluta og skyndilega leiddi lið Tindastóls 31-27. Næstu tíu stigin voru hinsvegar gestanna á meðan að Tess hvíldi en um leið og hún kom inná á ný komu Stólastúlkur til baka. Tess dregur að sér mikla athygli enda er hún bæði frábær að keyra á körfuna og ekki síðri að skjóta af færi. Valdís Ósk Óladóttir jafnaði leikinn 39-39 og tvö víti frá Tess gáfu Stólastúlkum forystuna í hálfleik. Staðan 41-39.
Eva Rún jók forystu Tindastóls í upphafi síðari hálfleiks en síðan kom þriggja mínútna kafli þar sem liðin komu boltanum ekki í körfuna. Sylvía Rún braut síðan ísinn og gerði nokkrar körfur á smá kafla og lið Þórs náði sex stiga forystu þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir af þriðja. Lið Þórs spilaði vel á þessum kafla og náði mest ellefu stiga forystu, 48-59, en körfur frá Valdísi, Marín og Tess urðu til þess að aðeins munaði þremur stigum fyrir lokafjórðunginn. Staðan 58-61. Nú var allt lagt undir og barist um hvern bolta. Rakel Rós Ágústsdóttir kom Stólunum yfir, 66-64, með þristi en Þórsarar jöfnuðu og skömmu síðar fékk Rakel högg í andlitið og kom ekki meira við sögu í leiknum og var skarð fyrir skildi. Næstu mínútur var leikurinn í járnum og hvað eftir annað jafnt. Marín Lind fékk sína fimmtu villu þegar tvær mínútur voru eftir og Tess setti þrist þegar 100 sekúndur voru eftir og kom liði Tindastóls þremur stigum yfir, 78-75. Sylvía Rún minnkaði muninn með vítaskoti og næstu sóknir liðanna klikkuðu. Sylvía jafnaði svo leikinn 78-78 en Stólastúlkur höfðu góðan tíma til að gera sigurkörfuna. Þrátt fyrir ágæta skottilraun og sjaldgæft sóknarfrákast í kjölfarið tókst ekki að koma boltanum í körfuna og því var framlengt.
Í framlengingunni gerði Sylvía síðan tíu af ellefu stigum Þórs á meðan ekkert gekk upp hjá liði Tindastóls og það voru því Þórsstúlkur sem fóru með sigur af hólmi, stigin tvö og grobbréttinn norður á Akureyri.
Þrátt fyrir jafnan leik verður að segjast eins og er að lið Þórs var töluvert betra liðið í dag, enda hafa þær hæð og reynslu umfram lið Tindastóls. Boltinn gekk betur hjá Þórsurum á meðan leikur Tindastóls einkenndist of mikið af hnoði og einstaklingsframtaki. Lið Þórs gerði mjög vel í því að loka á sendingarleiðir Tindastóls og á löngum köflum komu Stólastúlkur boltanum ekkert inn í teig – þá var boltanum einfaldlega stolið. Það vantar hinsvegar ekki hjartað og viljann í lið Tindastóls. Það reyndist of þungur biti að kyngja að missa systurnar, Rakel og Marín, af velli á lokamínútunum. Marín átti fínan leik, var með 18 stig og á meðan hún var inná þurftu Þórsarar að hafa áhyggjur af fleirum en Tess. Alltof oft klikkuð stelpurnar á að stíga Þórsarana út undir körfunni og því hirtu þær Akureysku 29 sóknarfráköst sem oft skiluðu stigum á töfluna. Lið Þórs tók 68 fráköst en Stólastúlkur 49. Þá misstu okkar stúlkur boltann 29 sinnum en lið Þórs 22 og lýsir það kannski best hasarnum í leiknum.
Tess var stigahæst með 40 stig eða helming stiga Tindastóls og hún tók að auki 12 fráköst. Marín Lind var 18 stig og Valdís Ósk sex. Í liði Þórs gerði Sylvía Rut 34 stig, tók 13 fráköst og stal níu boltum! Rut Konráðs var sömuleiðis mjög atkvæðamikil með 17 stig og 17 fráköst.
Tölfræði af vef KKÍ >
Næsti heimaleikur Tindastóls er gegn liði Hamars úr Hveragerði og fer hann fram föstudaginn 25. janúar og hefst kl. 19:15.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.