Áfram gakk!

Pétur hefur verið magnaður í úrslitakeppninni og átti fínan leik í kvöld. Það dugði þó ekki til í þetta skitpið. Þessi mynd er frá því á mánudagkvöld. MYND: DAVÍÐ MÁR
Pétur hefur verið magnaður í úrslitakeppninni og átti fínan leik í kvöld. Það dugði þó ekki til í þetta skitpið. Þessi mynd er frá því á mánudagkvöld. MYND: DAVÍÐ MÁR

Tindastólsmenn heimsóttu Valsmenn að Hlíðarenda í þriðja leik liðanna í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í kvöld. Stólarnir áttu frábæran fyrri hálfleik og leiddu með 16 stigum í hálfleik. Valsmenn nörtuðu í forystuna í þriðja leikhluta en í þeim fjórða gekk hvorki né rak hjá okkar mönnum og Valsmenn sigu framúr á lokasekúndunum. Lokatölur 84-79 og Valsmenn því komnir með undirtökin að nýju.

Hlíðarendapiltarnir voru frískir á fyrstu mínútum leiksins, leiddu 8-4 og 12-10, en þá tóku Stólarnir völdin og komust í 14-21 með körfum frá Badmus, Pétri, Viðari og Sigga. Staðan var 18-23 að loknum fyrsta leikhluta en gestirnir spiluðu glimrandi vel í öðrum leikhluta og gerðu nánast það sem þeim sýndist. Þannig henti Badmus í þrjá þrista um leikhlutann miðjan og var óstöðvandi á báðum endum vallarins. Siggi kom Stólunum í 21 stigs forystu, 31-52, þegar mínúta var eftir en Kári Jóns gerði fimm stig á síðustu mínútunni og staðan í hálfleik var staðan 36-52.

Badmus hóf síðari hálfleik með því að setja þrist en nú voru Valsmenn betur inni í leiknum, Finnur hafði fundið einhver svör við leik Tindastóls, og munurinn var þetta 10-15 stig lengstum. Pétur setti þrist þegar rúmar tvær mínútur voru eftir af þriðja leikhluta og staðan 52-67 en heimamenn náðu að minnka muninn í 12 stig, 57-69, fyrir lok fjórðungsins. Arnar henti í þrist í upphafi fjórða leikhluta og aftur var munurinn 15 stig en nú náðu Valsmenn upp ákafa í vörninni og fóru að setja skotin sín þar sem Stólarnir gáfu eftir í vörninni. Munurinn var kominn niður í tvö stig þegar rúmlega sex mínútur voru til leiksloka og þá fékk Arnar sína fimmtu villu – sem Stólarnir máttu illa við þar sem Zoran Vrkic hafði orðið fyrir einhverju hnjaski í fyrri hálfleik eftir fína innkomu og gat ekki spilað. komust yfir en Bess, sem hitti á slæman dag með skotin sín, svaraði með þristi en næstu mínútur skiptust liðin á um að hafa forystuna. Siggi kom Stólunum þremur stigum yfir þegar tæpar tvær mínútur voru eftir, 76-79, en lokasóknir Stólanna voru ekki vel framkvæmdar og Valsmenn stálu sigrinum.

Þetta var leikur tveggja ólíkra hálfleika. Stólarnir voru nánast óaðfinnanlegir í fyrri hálfleik, gerðu þá 52 stig, en Valsmenn komu vel gíraðir til leiks í síðari hálfleik og náðu að gera Tindastólsmönnum mjög erfitt fyrir í sókninni. Vörn Stólanna gaf sig í fjórða leikhluta og heimamenn gengu á lagið og unnu leikhlutann 27-10!

Badmus var enn eina ferðina magnaður fyrir lið Tindastóls en að þessu sinni glansaði kappinn í fyrri hálfleik og gerði þá 16 stig en aðeins fimm í þeim síðari. Gerði semsagt 21 stig í leiknum og tók níu fráköst. Pétur var með 14 stig, Siggi 12 og sjö fráköst og Bess skilaði 10 stigum en var aðeins með 21% skotnýtingu sem er óvanalegt á þeim bænum. Vrkic gerði níu lagleg stig á 12 mínútum og þá pössuðu Valsmenn óþarflega vel upp á Arnar sem endaði með 8 stig. Í liði Vals var Kári Jóns stigahæstur með 18 stig, Calloway 16, Acox 13, Lawson 12 og Hjálmar 10.

Liðin mætast í fjórða skiptið á sunnudaginn en þá verður spilaði í Síkinu. Leikurinn hefst kl. 20:15. Með sigri tryggja Valsmenn sér Íslandsmeistaratitilinn en sigri Stólarnir, og jafni þar með einvígið, verður fimmti og síðasti leikur liðanna að Hlíðarenda miðvikudaginn 18. maí.

Tölfræði af vef KKÍ >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir