Ævintýrakvöld á Króknum og oddaleikur framundan

Litla stemningin og gleðin í Síkinu í kvöld. SKJÁSKOT AF FACEBOOK
Litla stemningin og gleðin í Síkinu í kvöld. SKJÁSKOT AF FACEBOOK

Tindastóll og Valur mætust í fjórða leiknum í einvígi liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í Síkinu í kvöld. Leikurinn var jafn og spennandi en það voru gestirnir af Hlíðarenda sem hótuðu nokkrum sinnum að stinga af með gullið. Þeim varð þó ekki kápan úr því klæðinu því Stólarnir voru ódrepandi eins og oft áður. Lokamínútur leiksins voru hádramatískur og fór svo að framlengja þurfti leikinn. Þá drömuðu Stólarnir alla upp úr skónum, snéru leiknum sér í vil á loka andartökunum og Pétur galdraði fram sigurkörfu með því að stela boltanum eftir innkast Valsara og bruna upp völlinn með Kristófer Acox á hælunum og leggja boltann snyrtilega í körfuna og tryggði Tindastólsmönnum tækifæri til að taka titilinn í Origo-höllinni næskomandi miðvikudag. Mikið óskaplega getur þessi leikur stundum verið sætur! Lokatölur 97-95.

Það er reiknað með að 1.400 manns hafi troðið sér í Síkið í kvöld – örugglega nýtt met – og varla hægt að segja að sést hafi í auðan blett. Stemningin... já, það þarf nú ekkert að tala um hana lengur, hún er bara í einhverju rugli sem aldrei hefur sést eða heyrst áður segja málsmetandi menn.

Jafnræði var með liðunum framan af leik í kvöld og Arnar í stuði hjá Stólunum. Þá voru Siggi og Badmus líka að setj'ann og Vrkic skellti í þrist og kom heimamönnum sex stigum yfir, 24-18. Staðan var þó 29-28 að loknum fyrsta leikhluta og fljótlega í öðrum leikhluta varð ljóst að Vrkic gat ekki beitt sér. Valsmenn náðu góðum kafla og gerðu fyrstu níu stig annars leikhluta og náðu mest ellefu stiga forystu um leikhlutann miðjan. Kúrekarnir á Króknum voru þó ekki af baki dottnir og drituðu niður næstu 12 stigum og leiddu, 49-48, í hálfleik.

Valsmenn voru hins vegar komnir til að sjá og sigra og þeir gerðu sjö fyrstu stig síðari hálfleiks og Stólarnir hófu eltingarleikinn. Arnar jafnaði leikinn með skoti úr þríhleypunni, 58-58, en Kári Jóns svaraði í sömu mynt og aftur náðu gestirnir yfirhöndinni. Nú fóru hins vegar varnir liðanna á yfirsnúning og það reyndist liðunum erfitt að skora. Staðan var 61-67 að loknum þriðja leikhluta og ljóst að Stólarnir þurftu að vera grjótharðir og eitursvalir ætluðu þeir sér sigurinn. Gestunum tókst ekki að hrista þá af sér og þegar fimm mínútur voru eftir lagði Siggi boltan í körfu Valsmanna og munurinn þrjú stig, 73-76, sem er auðvitað enginn munur í körfubolta. Áfram gekk gestunum illa að skora en Badmus skellti í þrist og kom Stólunum yfir, 78-77, þegar þrjár og hálf mínúta var eftir. Jókst nú stemningin enn frekar á meðan liðunum gekk lítið að skora og sekúndunum fækkaði smám saman. Siggi setti niður víti og þegar 20 sekúndur voru eftir setti Arnar niður tvö og skyndilega voru heimamenn fjórum stigum yfir, 81-77. Steig þá upp Daltón-bróðirinn kenndur við Calloway og setti niður ruglþrist fyrir Valsmenn. Bess svaraði með vítum en fékk síðan dæmda á sig óíþróttamannslega villu þegar sjö sekúndur voru eftir. Víti Lawson klikkuðu en Valsmenn fengu boltann, Calloway reyndi þrist sem Bess varði en kappinn greip boltann aftur og setti þrist, spjaldið niður! Ojbarasta! Allt jafnt og lokaskot Péturs rataði ekki niður og því framlengt.

Framlengingin var æsispeannandi en Valsmenn virtust líklegri – eða kannski var það bara stressið sem sagði það – en allt þó í járnum. Kári Jóns fékk tvö víti þegar 23 sekúndur voru eftir og hann setti annað niður og kom Val í 90-93. Badmus minnkaði í eitt stig eftir hraða sókn Stólanna en aftur var brotið á Kára og nú setti hann bæði vítin niður. Baldur tók þá leikhlé þegar 10 sekúndur voru eftir og Stólarnir þremur stigum undir. Pétur tók innkast og sendi á Bess sem setti niður þrist af lööööngu færi og jafnaði leikinn. Finnur tók þá leikhlé og fór yfir málin með sínum mönnum. Reynsluboltinn Pavel átti að taka boltann inn en Völsurum hafði gengið hálf brösuglega að koma boltanum í leik og sú varð raunin í þetta skiptið. Baldur og Pétur áttuðu sig á playinu og þegar Pavel sendi boltann í áttina að Kristó þá var Pétur mættur, stal boltanum og ðe rest is historí!

Og Síkið nötraði og skalf í hamslausum fögnuði heimamanna.

Í raun var þetta aðeins önnur karfa Péturs í leiknum en kappinn gerir bara svo rosalega margt annað en að skora fyrir liðið sitt. Þrír stolnir boltar í framlengingu – er það eitthvað oná brauð? Badmus hélt uppteknum hætti og átti enn einn stórleikinn með 31 stig og átta fráköst. Bess gerði 26 stig og þar af setti hann niður sex af níu 3ja stiga skotum sínum og endaði með átta fráköst. Arnar gerði 19 stig og átti sex stoðsendingar líkt og Pétur og Siggi var með 10 stig og 11 fráköst. Í liði Vals var Calloway með 27 stig og setti niður nokkra skraulega þrista. Þá var Kári með 22 stig og Kristó var með 13 stig líkt og Bertone.

Úrslitaleikurinn fer fram í Origo-höllinni nú á miðvikudaginn og þar vilja örugglega allir vera. Ef blaðamann skjátlast ekki þá er þetta í þriðja skiptið sem lið Tindastóls kemst í úrslitaeinvígi um Íslandsmeistaratitilinn en liðið hefur örugglega ekki áður komist í oddaleik í slíku einvígi. ... LEIÐRÉTTING ... Samkvæmt Rúnari Birni er þetta fjórða úrslitaeinvígi Stólanna en sannarlega fyrsta skiptið sem strákarnir okkar ná í oddaleik – hin einvígin hafa öll endað 3-1 fyrir andstæðingana. 

Tölfræði á vef KKÍ >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir