Æfingaferðin til Portúgal hefur gengið frábærlega
Knattspyrnufólk í Tindastóli skaust á dögunum suður til Portúgals til æfinga og undirbúnings fyrir komandi tímabil í boltanum. Að sögn Sæþórs Más Hinrikssonar, framkvæmdastjóra Stólanna, er ferðin búin að ganga alveg frábærlega, mjög góð stemning í hópnum og æfingarnar hafa heppnast mjög vel. Hópurinn, sem telur 35 manns, er á svæði sem heitir Colina Verde. „Eru í rauninni með hótelið út af fyrir sig og mjög gott æfingasvæði,“ segir Sæþór.
Áður en hópurinn lagði land undir fót þá skellti Konráð Freyr Sigurðsson, fyrirliði Stólanna, nafninu sínu undir samning við knattspyrnudeild Tindastóls og samdi til eins árs. Hann hefur verið einn mikilvægasti leikmaður liðsins síðustu sumur en kappinn er árgangur 1995 og er rétt að slefa í 200 leiki með liði Tindastóls og einnig liði Drangeyjar. Hann hefur skorað 26 mörk í þessum leikjum.
Konni búinn að semja við Stólana
Í frétt á vef Tindastóls segir: „Konráð Freyr er mikilvægur hlekkur í meistaraflokk karla og því er mikið fagnaðarefni að hann taki slaginn með liðinu í 4. deild í sumar en það er einhuga markmið allra að koma liðinu beint upp aftur.“
Hópurinn kemur aftur til landsins 10. apríl. Stelpurnar hefja leik í Lengjudeildinni 6. maí en strákarnir spila 14. maí.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.