Við hormónaboltarnir tókum stefnuna beint á Istegade.

agust_ingiHver er maðurinn? Ágúst Ingi Ágústsson 

Hverra manna ertu? Sonur Önnu Hjartardóttur, dóttir Hjartar Vilhjálmssonar frá Vallholti og Rannveigar Jóhannesardóttur frá Þverá í Öxnadal, og Ágústs Guðmundssonar, sonur Munda í Tungu og Ernu Ingólfs bíla.

 

Árgangur? 1982.  

Hvar elur þú manninn í dag? Í Danmörku, n.t.t. Óðinsvéum. 

Fjölskylduhagir? Giftur Herdísi Ósk Baldvinsdóttur og eigum við eitt afkvæmi. 

Afkomendur? Embla Ingibjörg Ágústsdóttir, 5 ára. 

Helstu áhugamál? Iðkun og áhorf á knattspyrnu og körfuknattleik, lestur góðra bóka og samvera með vinum og fjölskyldu. 

Við hvað starfar þú? Sagnfræðinemi við Háskóla Suður-Danmerkur. 

Hraðaspurningar, þær virka þannig að þú botnar upphaf setninga með því fyrsta sem þér dettur í hug.  

Heima er .....................Sauðárkrókur 

Það er gaman.........................í góðra vini hópi. 

Ég man þá daga er........................þegar við strákarnir (og stelpurnar) lékum götukörfubolta hvernig sem viðraði. 

Ein gömul og góð sönn saga..................

Þar sem maður er búsettur í Danaveldi er við hæfi að segja eina sögu sem gerðist í Kóngsins Køben. Árið 1998 fóru leikmenn 3. flokks Tindastóls á knattspyrnumót í Køge, vinabæ Króksins. Einn daginn var ferðinni heitið til Kaupmannahafnar þar sem leikmenn og ágætir fararstjórar okkar myndum eyða deginum. Á Ráðhústorginu var ákveðið að við 15-16 ára drengirnir fengjum frjálsan tíma sem átti að eyða í búðarráp og slíkt. Við hormónaboltarnir tókum stefnuna beint á Istegade enda höfðum við áreiðanlegar heimildir fyrir því að þar fengist vænlegur varningur. Þræddum við búðirnar hverja á eftir annarri med tilheyrandi látum og gauragangi verslunarfólki til mismunandi mæðu. Eins og Íslendinga er siður versluðum við grimmt af dönskum. Þennan dag var ég sá eini sem hafði tekið með mér bakpoka og þótti það snilldar hugmynd að fræðsluefnið yrði geymt í bakpoka markmannsins. Svo var haldið á Strikið, inn í sportvöruverslun þar sem ég keypti mér stuttbuxur enda var heitt í veðri og slengdi ég mér í þær um hæl. Síðan var haldið inn í aðra verslun. Á leiðinni út úr þeirri búð byrjaði þjófavörn verslunarinnar að væla á mig, hinir svokölluðu vinir minir í liðinu þutu upp og niður Strikið og einn stóð ég er kona á miðjum aldri kemur og biður mig að opna bakpokann. Síðan tínir konan upp allt fræðsluefnið fyrir framan fulla búð af háttvirtum Hafnarbúum. Mæður gripu fyrir andlit barna sinna og feður stóðu og hlógu að mér. Síðan kom það upp úr krafsinu að búðarlokan í sportvörubúðinni hafði gleymt að taka þjófavörnina af stuttbuxunum.   

Spurt frá síðasta viðmælanda.................... Það liggur beint við þar sem Stólarnir féllu nú í sumar að spyrja hvort við eigum eftir að sjá COME BACK hjá Groddaranum þegar námstíma líkur í dk, þar sem sá liðsauki myndi klárlega hjálpa til við að byggja upp stórveldið? 

Svar............Stólarnir eru með efnilegan hóp knattspyrnumanna sem ég vona að haldi tryggð við félagið sitt og spili í 3. deildinni á næsta ári. Næli sér í leikreynslu og snúi svo pínu rosaslega sterkir í 2. deild. Hins vegar væri gaman að vera með þegar námsdvölinni lýkur enda hefur alltaf verið góður andi í boltanum og stuð í stúkunni. 

Hvern vilt þú sjá svara þessum spurningum og hvaða spurningu myndir þú leggja fyrir viðkomandi? 

Nafn.............Baldvin Bjarki Baldvinsson 

Spurningin er..................Er nokkuð við að vera á Skipaskaga, eftir að þeir gulu hættu að geta eitthvað í fótbolta og tími til kominn að snúa til baka í Skagafjörðinn?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir