Einhverjir höfðu reddað blárri mynd til að stytta okkur stundirnar

Arnar Kárason

Hver er maðurinn?

Ég er maðurinn

 

 

 

 

 

Hverra manna ertu? Sonur Kára Mar og Katrínar Axelsdóttur heitinnar.

 

Árgangur? 1977

 

Hvar elur þú manninn í dag? Í Reykjavík

 

Fjölskylduhagir? Einn

 

Afkomendur? Nei glætan – tók reyndar refaskyttuna Skarphéðinn Ingason í fóstur fyrir tæpum 15 árum og er hann ekki enn skriðinn úr greninu.

 

Helstu áhugamál? Tónlist, íþróttir og að skemmta sér í góðra vina hópi.

 

Við hvað starfar þú? Framkvæmdastjóri útlánasviðs Lýsingar hf. Er einnig skemmtanastjóri Brennzanna en ég fæ nú ekkert borgað fyrir það.

 

Hraðaspurningar, þær virka þannig að þú botnar upphaf setninga með því fyrsta sem þér dettur í hug.

 

Heima er ..................... í sveitinni í Skagafirði.

 

Það er gaman......................... að rokka með Brennzunum.

 

Ég man þá daga er........................ Ómar Sigmars hafði hár og þvottabretti, Haddi gat troðið, Óli Barðdal var ekki byrjaður í ljósum, Jón Brynjar bar út Moggann og söng “Ení maní moggi, ení maní moggi, Dustin Dustin Hoffmann”, Skarpi gat troðið, Guðjón Baldur Gunnarsson var kallaður Gutti, Atli Björn hélt partý um hverja helgi og skipti um lag á 30 sekúndna fresti, Stebbi Guðmunds fékk sér bjór út á Cheerios, Gústi Kára hreinsaði til í Miðgarði...

 

Ein gömul og góð sönn saga.................. Einu sinni sem oftar vorum við félagarnir að keppa fyrir Tindastól í körfunni og þessa helgi vorum við staddir í Hafnarfirði og gistum í gamla skátaheimilinu sem er rétt hjá íþróttahúsinu. Við vorum á gagnfræðaskólaaldri ca. 14-15 ára og kynþroskinn farinn að segja til sín og einhverjir höfðu reddað blárri mynd til að stytta okkur stundirnar þegar að þjálfarinn var ekki viðstaddur. Það var sem sagt eitthvað búið að glápa á þessa hressandi kvikmynd og spennan mikil á laugardagskvöldi þegar þjálfarinn mætir til að koma mönnum í háttinn og þá er spólan rifin úr tækinu með hraði og komið á öruggan stað. Jæja síðan förum við einn af öðrum að sofa og vöknum ferskir morguninn eftir, spænum í okkur morgunmat og förum út í íþróttahús að gera okkur klára fyrir stórleik. Stutt upphitun gengur vel og svo er liðið kallað saman til að fara yfir helstu leikbrögð og brellur gegn mótherjanum en þá er tekið eftir því að það vantar einn snilling í hópinn. Hann sést ekki í salnum og einn mikilvægasti leikur tímabilsins að byrja. En það þýddi ekki að fást um það og við stigum inn á vígvöllinn án okkar helsta baráttumanns. Þegar leikurinn var hafinn var sendur maður inn í búningsklefa að athuga hvort að drengurinn væri þar staddur en hann fannst ekki og þó víðar væri leitað. Líður svo að hálfleik og enn bólar ekkert á kappanum og menn búnir að afskrifa þátttöku hans í þessum leik. Svo gerist það öllum að óvörum þegar baráttan er í algleymi í upphafi síðari hálfleiks að hann birtist í salnum og kemur skokkandi í átt að varamannabekknum. Menn reka upp stór augu og spyrja hvern djöfulinn hann hafi eiginlega verið að gera? “Hvað er þetta maður, ég var bara að klára myndina!”

 

Spurt frá síðasta viðmælanda....................  Hvað spilaðir þú með mörgum útlendingum í Tindastól og hverjir eru 3 lélegustu.:

 

 

 

 

Svar............ Skv. áreiðanlegum heimildum frá alfræðihaus íslensks körfuknattleiks sem búsettur er í Danmörku spilaði ég með 9 erlendum leikmönnum í Tindastól. Hins vegar vil ég bæta þeim tíunda við sem lék með okkur á undirbúningstímabilinu haustið 1996 við slæman orðstír. Hann var kallaður Pippen og átti að vera ungversk goðsögn í boltanum. Svona alltmuligmaður á vellinum og gríðarlega öflugur. Hann var reyndar svo hrikalega lélegur að mig minnir að hann hafi bara fengið að spila nokkrar mínútur í einum æfingaleik og Dóri dómari sendi hann svo beint til föðurhúsanna í gúllasið. Annar skítlélegur var Yorick Parke en hans helstu tilþrif fyrir Tindastól voru að troða stórglæsilega í eigin körfu þegar hann sveif upp og reyndi að ná varnarfrákasti í Grindavík. Það var helvíti gott þegar hann var rekinn þá spurði Sigurvin Pálsson liðsfélagi okkar ca. viku síðar hvar Yorick væri eiginlega. Það voru búnir 2 leikir í millitíðinni og Sigurvin hafði loksins áttað sig á því að eitthvað hafði breyst. Sá þriðji verður að teljast Cecare Piccini sem var reyndar drengur góður og átti það til að skila sínu en þó yfirleitt ekki. Hans bestu móment voru þegar hann var að rusla Skarpa til í teignum á æfingum og þegar hann fékk frímiða á Subway frá stjórninni.

 

Hvern vilt þú sjá svara þessum spurningum og hvaða spurningu myndir þú leggja fyrir viðkomandi?

 

Nafn............. Davíð Þór Rúnarsson

 

Spurningin er.................. Hverjir eru 3 eftirminnilegustu samherjar í fótboltanum hjá Tindastóli og af hverju?

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir