feykir.is
Skagafjörður, Íþróttir
07.05.2023
kl. 01.15
oli@feykir.is
Lið Vals og Tindastóls mættust í kvöld á troðfullum Hlíðarenda í fyrsta leik liðanna í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn. Þrátt fyrir að Valsmenn séu ríkjandi Íslandsmeistarar, bikarmeistarar og deildarmeistarar virðast flestir spá Stólunum sigri í rimmunni en lið Tindastóls hefur verið sannfærandi og kraftmikið það sem af er úrslitakeppninnar á meðan Valsvélin hefur hikstað. Stólarnir voru sterkara liðið lengstum í kvöld og virtust ætla að sigla heim öruggum sigri, voru 19 stigum yfir þegar fimm mínútur voru eftir, en þá sýndu Valsmenn af hverju þeir eru meistarar og nöguðu muninn niður í þrjú stig þegar hálf mínúta var eftir. Keyshawn sýndi stáltaugar á vítalínunni í lokin og eftir að stuðningsmenn Stólanna höfðu haldið niðri í sér andanum í um tíu mínútur þá gátu þeir að lokum fagnað eins stigs sigri. Lokatölur 82-83 fyrir Tindastól.
Meira