Ykkar eldmóður er ykkar áhugasvið

17nov2009 037 -Ykkar eldmóður er þar sem ykkar áhugasvið er, sagði Ásdís Guðmundsdóttir starfsmaður Atvinnumála kvenna í upphafi fyrsta fundar af þremur sem átta aðilar á Norðurlandi vestra standa fyrir undir yfirskriftinni: Norðurljós – kveikjum á perunni.

Þessi fyrsti fundur er liður í alþjóðlegri athafnaviku sem nú stendur yfir víða um heim en tilgangurinn er m.a. að benda á að lausn vandamála felst í athafnasemi og að allir geta lagt hönd á plóg við að færa fram eitthvað jákvætt til samfélagsins. Einnig er markmiðið að koma af stað öflugri hugmyndavinnu þar sem unnið er með tækifæri og möguleika á svæðinu.
Fundarstaður fyrsta fundarins var á Hótel Mælifelli á Sauðárkróki og þangað mættu tæplega 20 manns. Dagskrá fundarins var á þann veg að fyrst ræddi Ásdís Guðmundsdóttir um þá þætti sem einkenna frumkvöðla og þar komu orð eins og – eldmóður – orka – trú á sjálfum sér – jákvæð hugsun og þrautseigja – svo nokkur séu nefnd. Eftir það var þátttakendum skipt í hópa þar sem unnið var með hugmyndir sem fram komu.
Reynslusaga frumkvöðuls var næst á dagskrá og þar fræddi Kristján Blöndal, annar eigandi Kjalfells á Blönduósi, viðstadda um reynslu sína af því að stofna og reka fyrirtæki. Auk þess að benda á að slíkt verkefni sé langhlaup í sjálfu sér þá lagði hann m.a. áherslu á sveigjanleika og að vera alltaf að skoða nýja möguleika.
Í lok fundar kynntu fundarboðendur þá þjónustu og möguleika sem felast í þeirra störfum en allir sinna þeir aðstoð við frumkvöðla á Norðurlandi vestra og aðra þá sem vilja stofna fyrirtæki eða standa fyrir viðburðum.
Eftirtaldir aðilar stóðu að fundunum: Atvinnumál kvenna, Byggðastofnun, Menningarráð Norðurlands vestra, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, SSNV – atvinnuþróun, Vaxtarsamningur Norðurlands vestra, Vinnumálastofnu og Virkja – Norðvesturkonur.
Síðari tveir fundirnir verða í Félagsheimilinu á Blönduósi miðvikudaginn 18. nóvember og á Café Síróp á Hvammstanga fimmtudaginn 19. nóvember og hefjast báðir fundirnir kl. 11.00.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir