YFIRLÝSING VARÐANDI FRAMBOÐ TIL FORMANNS FRAMSÓKNARFLOKKSINS
Framsóknarmenn munu velja nýja forystusveit á flokksþingi 16.–18. janúar nk. þar sem kosið verður um formann, varaformann og ritara flokksins. Ég hef um tíma íhugað framboð til formanns en að vandlega athuguðu máli hef ég ákveðið að gefa ekki kost á mér. Ég hef hins vegar ákveðið að gefa kost á mér til annarra starfa í forystusveit flokksins.
Ástæðurnar fyrir því að ég gef ekki kost á mér til embættis formanns eru tvær:
1. Formaðurinn er rödd og andlit flokksins út á við og því er aðgengi að ræðustól Alþingis lykilatriði.
2. Formennska kallar á mikil ferðalög og kostnað sem ég tel nánast eingöngu á færi sitjandi alþingismanna eða ráðherra að sinna.
Stefna Framsóknaflokksins á líklega betur við í dag en oft áður. Hugsjónir samvinnu og félagshyggju þar sem byggt er á samspili ríkis- og einkarekstrar með öflugt atvinnu- og mannlíf í fararbroddi og sem setur manngildi ofar auðgildi munu verða grunnstef í endurreisn íslensks samfélags. Að þessu þarf formaður Framsóknarflokksins að vera tilbúinn að vinna ásamt því að byggja upp traust og trúverðugleika Framsóknarflokksins.
Til að þetta gangi eftir er það mitt mat að nýr formaður Framsóknarflokksins þurfi að hafa aðgang að ræðustól Alþingis. Hann þarf að þekkja starf og stefnu Framsóknarflokksins og koma úr grasrótinni. Nýr formaður þarf að vera trúr grunngildum flokksins og leiða hann til sóknar á þeim forsendum. Hann þarf að vera hafinn yfir vafa um þátttöku í málum og átökum er skaðað hafa flokkinn og trúverðugleika hans. Þá þarf nýr formaður að hafa trúnað flokksmanna og traust þeirra til að fylgja eftir stefnu flokksins.
Afar mikilvægt er að formaður flokksins hljóti afgerandi kosningu og nái að sameina forystu og flokksmenn alla. Ég þakka þeim fjölmörgu sem ég hef rætt þessi mál við og ítreka vilja til starfa í forystusveit flokksins.
Gunnar Bragi Sveinsson, sveitarstjórnarfulltrúi í sveitarfélaginu Skagafirði.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.