Yfirlýsing oddvita Pírata í NV kjördæmi
Ég vil byrja á að þakka öllum, sem hafa tekið sér tíma til að senda mér skilaboð og góðar hugsanir, kærlega fyrir stuðninginn. Ég er upp með mér yfir því trausti sem Píratar á landsvísu hafa sýnt mér með því að velja mig sem oddvita í NV kjördæmi og mun ég gera mitt allra besta til þess að standa undir væntingum.
Eftir langt prófkjörskosningaferli er listinn nú endanlega tilbúinn, að því gefnu að allir taki sitt sæti. Á honum er fjölbreytt og frábært fólk, en það er einmittþað sem gerir flokkinn sterkan. Í honum eru fulltrúar flestra stétta og hópa samfélagsins og vilja Píratar vinna að því að bæta samfélagið og vinna að auknum jöfnuði. Píratar standa fyrir verndun og eflingu borgararéttinda, gagnrýna hugsun, frelsi og sjálfsákvörðunarrétt borgaranna, beint lýðræði og gagnsæi valdastoða samfélagsins. Það er þessi hugmyndafræði Pírata sem ég heillaðist af í byrjun og mun nú gera mitt besta til þess að vinna að. Einnig tel ég að með Pírötum komi nýr og ferskur andblær inn í stjórnmálin á Íslandi þar sem gagnrýnin hugsun er í fyrirrúmi. Þetta sást vel í prófkjörskosningunum þar sem fólk innan jafnt sem utan flokksins horfði gagnrýnum augum á ferlið, um það var rætt opið og frjálslega og eftir stöndum við með mjög mikilvægan lærdóm fyrir næstu prófkjörskosningar. Þessi tegund gagnrýnnar hugsunar á einnig mjög vel við á Alþingi þar sem alþingismenn úr ólíkum flokkum, með mismunandi skoðanir koma saman og eiga að vinna með vandmeðfarin mál. Í þannig stöðu er mikilvægt að geta gagnrýnt á uppbyggilegan og málefnalegan hátt og reynt að finna sameiginlegan snertiflöt og niðurstöðu sem hugnast flestum. Lykillinn að þessu er að við komum öll fram við hvort annað af virðingu og mætumst á málefnalegum grunni - því þó við komum frá ólíkum flokkum og höfum ólíkar áherslur ættu allir stjórnmála- og alþingismenn landsins að hafa a.m.k einn sameiginlegan grunn og það er að bæta lífsskilyrði landsmanna og samfélagið allt.
Eva Pandora Baldursdóttir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.