Yfir 100 þúsund krónur úr tombólum
Þær Selma Magnúsdóttir og Dagmar Björg Rúnarsdóttir á Sauðárkróki héldu tombólu í gær og fyrradag fyrir utan Skagfirðingabúð og Hlíðarkaup til styrktar Þuríði Hörpu en senn líður að Indlandsför hennar.
Komu þær Selma og Dagmar við í Nýprent í dag og afhentu Þuríði afrakstur tombólunnar sem alls voru rúmar 32 þúsund krónur. Tók Þuríður við peningunum og sagði að þarna hafi þær safnað fyrir fargjaldinu til Bretlands og þakkaði þeim fyrir góðvildina.
Krakkar í Skagafirði hafa verið duglegir við að safna fyrir Þuríði sem brátt fer til Indlands en á bloggsíðu hennar Óskasteinn.com kemur fram að 15 dagar séu til stefnu. Upphæðin sem börnin hafa látið í söfnunina er komin yfir 100 þúsund krónur og vill Þuríður koma kæru þakklæti til allra þeirra sem leggja henni lið.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.