Vörumiðlun eignast flutningafyrirtækið Júlli Jóns ehf.
Vörumiðlun á Sauðárkróki hefur eignast flutningafyrirtækið Júlli Jóns ehf. í Borgarnesi en gengið hefur verið frá kaupum eftir því sem fram kemur á Skessuhorni, fréttaveitu Vesturlands. Þar er haft eftir seljandanum, Júlíusi Jónssyni, að búið sé að handsala kaupin en formlega gangi salan í gegn um næstu mánaðamót.
Samkvæmt frétt Skessuhorns mun Vörumiðlun áfram reka starfsstöð í Borgarnesi en hún er til húsa í Engjaási, og engar breytingar eru fyrirhugaðar hvað starfsmenn snertir, þeim bjóðist vinna áfram. Í samtali við Skessuhorn segist Júlli hafa vonast eftir að heimamenn keyptu af sér reksturinn en af því hafi ekki orðið. Því fagni hann þessum málalokum. Sjálfur verður Júlli áfram viðloðandi reksturinn, en segist stefna á að taka sumarfrí næsta sumar, það fyrsta í mörg ár.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.