Vonir standa til að það náist að steypa brúardekkið fyrir veturinn
Vel gengur með uppbyggingu Þverárfjallsvegar í Refasveit og Skagastrandarvegar um Laxá en þar leggja Skagfirskir verktakar um 12 km veg auk þess að byggja 14 metra háa og rúmlega hundrað metra langa brú.
Vegurinn nýi liggur mun vestar en sá gamli, allt frá hringvegi norðan Blönduóss að núverandi Þverárfjallsvegi, um 8,5 km að lengd og nýs Skagastrandarvegar frá nýjum Þverárfjallsvegi að Skagastrandarvegi norðan Höskuldsstaða, um 3,3 km að lengd.
„Þetta þokast áfram. Við erum langt komin með fyllingar og búið að steypa undirstöður á brúnni yfir Laxá og byrjað að byggja upp undir dekkið þannig að það næst vonandi að steypa fyrir veturinn, vonandi í október,“ segir Ámundi Rúnar Sveinsson hjá Víðimelsbræðrum, eins þeirra fyrirtækja sem mynda Skagfirska verktaka. Hann segir verkið hafa gengið eftir áætlun og ef veðurguðirnir verði þeim hliðhollir verður unnið af krafti í vetur. „En ef það verður harður vetur og snjóþungt þá kannski stoppum við í einhvern tíma,“ segir hann en ekki er ráðlegt að keyra um veginn ef mikill snjór er á honum. „Þá þurfum við að moka honum frá, þá kannski stoppum við. En við erum búnir með undirbyggingu vegarins þannig að við getum haldið áfram þó það komi pínu frost.“
Um 25 manns vinna að jafnaði við verkið 12 – 13 á hvorum stað, þ.e. við brúarsmíðina og í vegagerðinni.
Mikil samgöngubót
Ámundi Rúnar segir að áætluð skil séu næsta haust en draumurinn sé að hleypa umferð á hluta vegarins fyrir verslunarmannahelgi. „Við förum þá að vinna í tengingum úti á Skagastrandarvegi og við Þverárfjallsvegi þannig að við getum þá kannski hleypt á aðalkaflann en hann þarf að keyrast til eins og maður segir.“
Það er ljóst að um mikla samgöngubót verður að ræða þar sem mjög slæmur vegarkafli fer út, gamli Skagastrandarvegur, sem Ámundi Rúnar segir vera ónýtan og hafi verið í mörg ár.
Mikil umferð þungaflutninga fer eftir honum bæði vöruflutningar sem urðunarsorpbílar.
Þá má nefna að nýja brúin yfir Laxá er mikið mannvirki, yfir 14 metra há og 106 metra löng en hún tekur við af einbreiðri brú sem allir hljóta að vera fegnir að losna við en að henni liggur vegur með krappri beygju og jafnvel blindhæð.
Hér fyrir neðan er skemmtilegt myndband sem hægt er að finna á YouTube, tekið 20. júlí sl. af framgangi vegaframkvæmdanna á Refasveit af Kristínu Blöndal.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.