Vogabær og Mjólka sameinast Kaupfélagi Skagfirðinga
Samkeppniseftirlitið telur að samruni Kaupfélags Skagfirðinga og Mjólku ehf. sé andstæður markmiðum samkeppnislaga og geti haft skaðleg áhrif á samkeppni. Aðhafast ekkert vegna samruna við Vogabæ.
Þetta kemur fram í áliti Samkeppniseftirlitsins en þar á bæ segjast menn ekki hafa heimild til að stöðva samrunaferli KS og Mjólku þar sem það fellur ekki undir gildissvið samkeppnislaga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Samkeppniseftirlitinu skortir því lagaheimild til að grípa til íhlutunar á grundvelli laganna. Samruni afurðastöðva í mjólkuriðnaði fellur undir landbúnaðarráðuneytið og þar segir í 71. gr. búvörulaga að þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga sé afurðastöðvum í mjólkuriðnaði heimilt að sameinast, gera með sér samkomulag um verkaskiptingu milli mjólkursamlaga að því er varðar framleiðslu einstakra mjólkurvara og hafa með sér annars konar samstarf til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu mjólkurafurða. Það sem Samkeppniseftirlitið setur aðallega fyrir sig í samrunanum er 7,5% eignarhlutur KS í Mjólkursamsölunni ásamt því að Þórólfur Gíslason kaupfélagsstjóri KS er varaformaður stjórnar MS. Hlutur KS í Mjólku er 87,5%.
Samkeppniseftirlitið telur ekki ástæu til að aðhafast vegna samruna Kaupfélags Skagfirðinga og Vogabæjar en KS keypti 50% hlut í fyrirtækinu fyrr á þessu ári.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.