Vistvænar orkugeymslur í sjálfbær íbúðarhús
BRC ehf. undir merkjum BlueRock Eco Housing og nýsköpunarfyrirtækið Alor ehf. hafa gert með sér samning um forpöntun á 3200 vistvænum orkugeymslum Alor. Rannsóknir og þróun á hinni vistvænu álrafhlöðutækni hefur farið fram síðustu níu árin af framúrskarandi vísindamönnum samstarfsfyrirtækisins Albufera Energy Storage og er áætlað að vöruþróun hefjist á næstu mánuðum. Vörurnar verða endurvinnanlegar og með lítið umhverfisfótspor.
Í tilkynningu til fjölmiðla segir að BRC vinni að undirbúningi verkefnis sem snýr að því að hanna, þróa og byggja íbúðarhúsnæði með sjálfbærni að leiðarljósi, bæði á Íslandi sem og erlendis. Í verkefninu verður unnið að því að draga úr umhverfisáhrifum frá upphafi til enda framkvæmdanna auk þess sem allt frárennslisvatn verður hreinsað á staðnum með litlum hreinsistöðvum, kynding verður með varmadælum og rafmagn húsnæðisins verður knúið með endurnýjanlegri orku sem framleidd er með vindi og sól. Orkugeymslur Alor munu geyma hina endurnýjanlegu orku og þannig sjá til þess að nægt rafmagn verði til staðar þegar sólin sest og vind lægir.
„Húsin eru einingarhús úr timbri með þýskum sólarsellum sem líta út eins og þaksteinn og litlum vindmyllum þar sem það hentar. Húsin verða sjálfbær með orku en hana þarf að geyma og nota þegar hvorki nýtur sólar né vinda. Þar kemur hin byltingarkennda tækni Alor inn sem mikilvægur hlekkur í verkefnið en álorkugeymslurnar eru vel til þess fallnar að vera staðsettar í nálægð við íbúðarhúsnæði þar sem af þeim mun hvorki stafa eld- né sprengihætta,“ segir Guðjón Magnússon arkitekt og stjórnarformaður BRC ehf.
BRC ehf. hyggst setja upp fyrstu frumgerðir af hinum vistvænu íbúðarhúsum á Íslandi á næstunni í samstarfi við fyrirtækið BBH ehf. Félögin stefna að því að byggja yfir 3000 vistvæn hús á Spáni og hefja framkvæmdir á árinu 2023.
„Það er eftirsóknarvert að hefja samstarf við félag sem deilir leiðarljósi Alor að auka sjálfbærni og minnka umhverfisfótspor. Lausnir Alor verða hagkvæmar og langan endingartíma og verða vel til þess fallnar að geyma orku sem framleidd er með vindi og sól. Það er því mikið tilhlökkunarefni að taka þátt í metnaðarfullu verkefni BRC,“ segir Linda Fanney Valgeirsdóttir, framkvæmdastýra Alor.
Alor ehf. var stofnað í þeim tilgangi að vinna að þróun og síðar framleiðslu á sjálfbærum álrafhlöðum sem munu hraða orkuskiptum m.a. í samgöngum, sjávarútvegi, landbúnaði og fjölbreyttum iðnaði. Einn stofnanda fyrirtækisins og stjórnarformaður er Valgeir Þorvaldson athafnamaður á Vatni á Höfðaströnd í Skagafirði.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.