Virkilega þakklát og stolt
Eins og Feykir hefur greint frá var Perla Ruth Albertsdóttir, handknattleikskona frá Eyjanesi í Hrútafirði, leikmaður Selfoss og íslenska kvennalandsliðsins, valin íþróttamaður USVH árið 2018. Einnig var Perla valin íþróttakona Sveitarfélagsins Árborgar. Glæsilegur árangur hjá Perlu, ekki síst þar sem þetta er í annað sinn sem hún hlýtur þessa sæmd hjá sömu aðilum.
Perla Ruth æfir og spilar handknattleik með UMF. Selfoss í Olís deildinni þar sem liðið endaði í 6. sæti deildarinnar í vor sem er besti árangur liðsins í sögu félagsins og var Perla í stóru hlutverki í liðinu í vörn og sókn. Perla endaði það tímabil með 105 mörk í 19 leikjum ásamt því að fiska mikið af vítaköstum og vera lykilleikmaður í varnarleik liðsins. Perla komst einnig með liði Selfoss í 8 liða úrslit bikarkeppni HSÍ.
Feykir hafði samband við Perlu og lagði fyrir hana nokkrar spurningar og byrjaði á að spyrja hvort það hafi komið á óvart að vera valin íþróttamaður tveggja sveitarfélaga annað skiptið í röð?
-Já, bæði og. Það er hellingur af frábæru íþróttafólki tilnefnt til svona verðlauna, svo það er alveg frábært og maður verður alltaf jafn hissa og glaður að vera valin best af þeim öllum. En svo veit ég að ég er búin að vinna vel fyrir þessu, leggja mig 100% fram allt árið og gera allt sem ég mögulega get, svo ég veit alltaf að þetta er möguleiki.
Perla segir það mikinn heiður að bera þessa titla og í því fólgin mikil hvatning að gera enn betur, og ná ennþá lengra á árinu 2019. Hún segir árið 2018 hafa gengið mjög vel hjá sér og hún tekið skref uppávið á öllum sviðum og er hún virkilega spennt að taka næstu skref 2019.
Hvað er framundan?
-Framundan með Selfoss er seinni hluti tímabilsins í Olís deildinni, en deildin er gífurlega jöfn þetta árið og geta öll lið tekið stig hvert af öðru, svo seinni hlutinn verður æsispennandi og margir mikilvægir leikir framundan.
Framundan með Íslenska landsliðinu er umspil um HM sæti (sem við unnum okkur fyrir í forkeppni í nóvember) og spilum við þá leiki í maí á móti Spáni.
Svo þangað til spilum við nokkra æfingaleiki og undirbúum okkur fyrir þetta gífurlega mikilvæga verkefni. Ef umspils leikirnir við Spán vinnast þá komumst við á HM í desember 2019.
Eitthvað sem þú vilt koma á framfæri?
-Vil þakka innilega fyrir þennan heiður að vera kosin íþróttamaður ársins, annað árið í röð, er virkilega þakklát og stolt.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.