Villufáni LÍÚ
LÍÚ hefur blásið til áróðursherferðar gegn svokallaðri fyrningarleið í sjávarútvegi. Nú halda samtökin fund eftir fund, auglýsa í blöðum og skrifa greinar af miklum móð.
Í þessari viku hafa þeir boðað morgunverðarfund á Grand Hótel, þar sem raðað er á mælendaskrána hagsmunaaðilum úr þeirra eigin röðum auk forsvarsmanns matsfyrirtækisins Deloitte sem samtökin keyptu til þess að gera úttekt á áhrifum fyrningarleiðarinnar, fyrir um það bil ári. Afrakstur þeirra viðskipta er skýrsla - litprentuð á glanspappír - sem þeir veifa nú mjög til vitnis um það að íslenskur sjávarútvegur muni fara lóðbeint á hausinn ef fyrningarleiðin verði farin. Engum fulltrúa stjórnvalda eða fylgjenda svonefndrar fyrningarleiðar er boðið að tjá sig á fundinum. Segir það sitt um það hversu „upplýsandi" umræðurnar muni verða.
Þetta er allt saman mjög skondið. Í fyrsta lagi vegna þess að Deloitte skýrslan sýnir alls ekki áhrif fyrningarleiðar á íslenskan sjávarútveg. Til þess skortir skýrsluhöfundana forsendur - eins og kemur raunar fram í formálsorðum þeirra.
Í öðru lagi er þetta er skondið vegna þess að LÍÚ menn hafa sjálfir kallað mjög ákaft eftir nánari útfærsluhugmyndum stjórnvalda um framtíðarskipan fiskveiðistjórnunar - segjast ekkert vita hvað stjórnvöld séu yfirleitt að hugsa. Samt telja þeir (og matsfyrirtæki á þeirra vegum) sig geta spáð fyrir um afleiðingarnar af fyrningarleiðinni, þó þeir viðurkenni í hinu orðinu að þeir viti ekki hver útfærsla hennar verði.
Annars er það af margumræddri Deloitte-skýrslu að segja að ég hef borið hana undir hagfræðinga. Meðal annars bað ég Þórólf Matthíasson hagfræðiprófessor að fara yfir hana og gefa mér skriflegt álit á henni. Í álitsgerð sinni benti hann á að í skýrslunni sé notast við afar einfalda (og um leið takmarkaða) aðferðafræði. Gengið sé út frá því að með fyrningarleiðinni verði til nýr kostnaðarliður sem ekki hafi áhrif til hækkunar eða lækkunar á aðra kostnaðarliði. Þar með verði að telja "að höfundum skýrslunnar séu ekki kunn þau áhrif sem inngrip á borð við nýja skattlagningu eða aðrar umgjarðarbreytingar hafa á markaðverð framleiðsluþátta og aðfanga." Þetta eru grundvallar mistök, segir hann. Í sama streng taka aðrir hagfræðingar sem ég hef rætt við.
Í Deloitte skýrslunni er fullyrt að svokölluð fyrningarleið muni leiða af sér grundvallarbreytingu á skipulagi sjávarútvegsfyrirtækja og því muni þau fara í þrot ef leiðin verði farin. Engin haldbær rök eru þó sett fram fyrir þessu - enda af og frá að innköllun og endurúthlutun veiðiheimilda muni fela í sér grundvallarbreytingar á skipulagi greinarinnar.
Þórólfur segir: „Skipulag greinarinnar er jú nú það að einstakar útgerðir geta leigt til sín kvóta og gera það. Fyrir þann kvóta greiða þær upphæð sem svarar allt að þeim viðbótarhagnaði sem þær geta fengið af þessum viðbótarkvóta. Fyrningarleiðin breytir engu hvað þetta varðar, því ekki getur skipt máli fyrir þann sem greiðir fé fyrir kvótaleigu hver móttakandi greiðslunnar er."
Niðurstaða þeirra hagfræðinga sem ég hef rætt þetta við er á eina lund: Deloitte skýrslan gefur ekki á nokkurn hátt mynd af áhrifum svonefndrar fyrningarleiðar á íslenskan sjávarútveg.
Hvað segir það okkur? Jú, það segir okkur meðal annars, að þessi skýrsla sem LÍÚ heldur nú sem mest á lofti, er einfaldlega litprentað áróðursrit á glanspappír: Villuflagg sem þeir veifa til þess að afvegaleiða umræðuna.
Höfundur er alþingismaður.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.