Vilja reglur um Drangeyjarsund

Myndin tengist fréttinni ekki beint.

Björgunarsveitin Skagfirðingasveit hefur ákveðið að setja sér starfsreglur um fylgd við sjósundmenn. Sem stendur gilda engar reglur um öryggi sundmanna og því hefur stjórn Skagfirðingasveitar samþykkt viðmiðunarreglur, taki sveitin að sér fylgd við sundmenn, svo að lágmarks öryggi sundmanna og fylgdarliðs sé tryggt.

Allar björgunarsveitir í Skagafirði og á Siglufirði voru boðaðar út fyrir skemmstu þegar maður í sjósundmaður týndist.

Í því tilfelli voru tveir í sjónum og einn bátur að fylgja. Við höfum þá skoðun að einn bátur þurfi að fylgja hverjum sundmanni og störfum nú eftir því. Það er margt sem getur farið úrskeiðis á sjó og erfitt getur reynst að finna fólk á haffletinum. Ef aðstæður eru ekki uppá hið allra besta t.d einhver alda eða skyggni takmarkað getur verið nær ómögulegt að koma auga á hluti í sjónum, ekki síst þegar litlir bátar eru notaðir og yfirsýn takmörkuð. Sundmenn eins og aðrir kólna hratt í sjónum og tími til leitar þessvegna afar naumur. Það er því skoðun okkar að öryggi sundmanna verði ekki að fullu tryggt nema að einn bátur fylgi hverjum sundmanni, annað er leikur að eldi, segir Jón Hö formaður Skagfirðingasveitar.

Að sögn björgunarsveitamanna hafa þeir mikinn áhuga á því að reglur verði settar um Drangeyjarsund. Ein hugmynd er sú að einhver aðili taki að sér að halda utanum Drangeyjarsund og Grettissund og sjái um að sundmenn fá afrek sín viðurkennd og skráð. Hvort sem að sá aðili er sveitarfélagið, björgunarsveit, sunddeildin eða einhver annar, kæmi sá aðili til með að halda utanum skráningu afreka, tíma og skipulag gegn sanngjörnu gjaldi. Björgunarsveitin Skagfirðingasveit eða aðrir viðurkenndir aðilar komi svo til með að fylgja þeim öryggiskröfum sem settar eru svo að öryggi sundmanna og fylgdarliðs sé sem best tryggt. -Þróist málin í þessa átt er fylgd við sjósundmenn verkefni sem við vildum glaðir sinna, segir Jón.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir