Vigdís Edda hefur vistaskipti og spilar nú með liði Þórs/KA

Knatt­spyrnu­deild Þórs/​KA hef­ur gert tveggja ára samn­ing við Króksarann Vig­dísi Eddu Friðriks­dótt­ur (1999) en hún kem­ur til Ak­ur­eyr­ar­fé­lags­ins eftir tvö ævintýraár með liði Breiðabliks í Kópavogi. Vigdís Edda er að sjálfsögðu uppalin Stólastúlka og er nú á ný komin á kantinn hjá Jóni Stefáni sem áður þjálfaði lið Tindastóls en tók í haust við liði Þórs/KA. Akureyringar ætla sér stóra hluti í Pepsi Max deildinni í sumar og hafa styrkt hópinn töluvert að undanförnu.

Hjá Breiðabliki lék Vigdís Edda 25 leiki í efstu deild og skoraði í þeim tvö mörk og þá lék hún fjóra leiki í Mjólkurbikarnum og gerði í þeim tvö mörk. Fyrra sumarið hennar varð hún Íslandsmeistari með Blikum. Þá tók hún þátt í öllum sex leikjum Blika í Meist­ara­deild Evr­ópu sl. haust þar sem mótherjarnir voru meðal annars lið Paris Saint German og Real Madrid. Það eru ekki margir íslenskir leikmenn með það á ferilsskránni!

Vigdís lék fyrsta leik sinn með meistaraflokki kvenna með liði Tindastóls í C-riðli 1. deildar sumarið 2015 en árið á eftir gerði hún fimm mörk í tíu leikjum en mest gerði hún tíu mörk á einu tímabili í 2. deild kvenna 2018 þegar ævintýri Stólastúlkna fór á flug. Alls gerði Vigdís 30 mörk í rétt rúmlega 100 leikjum með liði Tindastóls en oftar en ekki var hún á kantinum; eldsnögg og áræðin.

Þór/​KA hafnaði í sjötta sæti úr­vals­deild­ar­inn­ar á síðustu leiktíð með 22 stig úr 18 leikj­um. „Ég er gífurlega ánægður með að fá Vigdísi í Þór/KA. Við þekkjumst vel frá því ég þjálfaði hana í Tindastóli og þarna fer stelpa sem getur náð ofboðslega langt og styrkir okkar hóp mikið. Hún mun smellpassa í hópinn okkar bæði sem leikmaður og karakter. Svo ég tali nú ekki um hve vel hún hentar í leikstíl liðsins,“ segir Jón Stefán á heimasíðu Þórs/KA.

Feykir óskar Vigdísi Eddu velfarnaðar í Pepsi Max í sumar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir