Viðurkenningar fyrir snyrtilegustu, fallegustu, myndarlegustu og...
Umhverfisverðlaun Skagafjarðar voru veitt s.l. fimmtudag við hátíðlega athöfn í Húsi frítímans. Þar voru veitt verðlaun í sjö flokkum en Sveitarfélagið Skagafjörður ásamt Soroptimistaklúbbi Skagafjarðar standa að verðlaununum.
Þórdís Friðbjörnsdóttir formaður Umhverfis og samgöngunefndar bauð gesti velkomna og lýsti ánægju sinni með samstarf nefndarinnar og Soroptimista sem unnið hafa að þessu árlega verkefni s.l. fimm ár og taldi að umhverfisvitund og tiltekt Skagfirðinga almennt hafi batnað.
Aðalheiður Reynisdóttir gjaldkeri Soroptimista lýsti aðkomu klúbbfélaga að verkefninu og sagði að þær stöllur væru með nefið niður í öllum görðum og býlum. Farnar eru tvær skoðunarferðir um héraðið auk tveggja garðaskoðana og hafði Aðalheiður það á orði að vandasamara verði með hverju árinu að tilnefna í verðlaunin. Þó er eitt sem ekki er í lagi að mati hennar en það er iðnaðarsvæðið á Króknum sem tilfinnanlega vantaði „Soffíu frænku“ á svæðið.
Umhverfisverðlaun Skagafjarðar 2009 hljóta:
Útvík í Staðarhreppi hinum forna sem myndarlegasta sveitarbýlið. Þar búa hjónin Árni Hafstað og Birgitte Bærendtsen.
Melar í Hjaltadal sem myndarlegasta sveitarbýlið án búskapar. Melar er nýbýli út frá Skúfsstöðum sem Sigurður Þorsteinsson fyrrverandi bóndi byggði.
Fallegasta lóðin í þéttbýli þótti garðurinn að Birkihlíð 33 á Sauðárkróki en þar búa hjónin Heiðrún Friðriksdóttir og Sveinn Sigfússon.
Snyrtilegasta stofnunin þótti vera Sauðárkrókskirkja og eignir hennar þ.e. Safnaðarheimilið og kirkjugarður. Brynjar Pálsson formaður sóknarnefndar tók við viðurkenningunni.
Sjávarútvegsfyrirtækið Fisk Seafood hlaut verðlaun í flokknum fallegasta fyrirtækið og veitti Jón E Friðriksson framkvæmdastjóri fyrirtækisins viðurkenningunni móttöku.
Viðurkenningin, Einstakt framtak, féll Drangeyjarjarlinum Jóni Eiríkssyni í skaut fyrir einstaka þrautsegju og baráttu við náttúruöfl en mikil uppbygging hefur átt sér stað að Reykjum á Reykjaströnd að tilstuðlan hans.
Drekahlíð á Sauðárkróki var valin fallegasta gatan í þéttbýli en þar hafa íbúar þótt samheldnir við að halda henni snyrtilegri hver á sinn hátt.
Í þakkrorðum Jóns E Friðrikssonar kom fram að fiskihjallarnir sem staðsettir eru í fjörunni neðan fyrirtækisins hafa mikið aðdráttarafl og dæmi þess að heilu rúturnar stoppi til þess að mynda þá.
Drangeyjarjarlinn þakkaði einnig fyrir sig og hugleiddi það hvað Grettir Ásmundarson hefði hugsanlega gert við söluvoðarkuflinn, er hann gyrti í brækur fyrir sund, þegar hann lauk við sundið fræga úr Drangey og bakaðist í lauginni. Datt Jóni það helst í hug að brækurnar og kuflinn hefðu verið hengd upp til þerris á hjöllum sem hljóta að hafa verið á bænum. Jón auglýsti eftir söluvoðarkufli til að hengja á þá hjalla sem hann er nýbúinn að koma upp á Reykjum en erfitt hefur það reynst fyrir hann að útvega sér slíkan fatnað.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.