Víðir hafði betur í garði Tindastóls
Karlalið Tindastóls lék fjórða leik sinn í 2. deildinni í sumar í gærdag við frekar blautar aðstæður. Leikið var á Sauðárkróksvelli sem er nú enn ekki kominn í sína fagurgrænu fegurð heilt yfir. Það var lið Víðis í Garði sem heimsótti Stólana og líkt og í fyrri leikjum sumarsins fóru Stólarnir halloka. Lokatölur 1-3 fyrir Víði.
Lið Tindastóls byrjaði fyrsta heimaleik sumarsins með glæsibrag því Stefan Antonio Lamanna gerði fyrsta mark leiksins strax á 2. mínútu en forysta Stólanna entist aðeins í um 20 mínútur því á 23. mínútu jafnaði Tonci Radovnikovic metin. Heimamenn urðu síðan fyrir áfalli þegar Andri Gíslason kom Víðismönnum yfir í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Ekki tókst Tindastólsmönnum að jafna leikinn í síðari hálfleik en Fannar Orri Sævarsson bætti við þriðja marki gestanna á 66. mínútu og þar við sat.
Það er augljóslega brött brekka í boltanum hjá meistaraflokki karla þessa dagana og aðstæður á þann veg að lítil efni hafa staðið til þess að styrkja hópinn að ráði. Liðið hefur fengið fjóra skelli í fyrstu fjórum leikjunum en það er þó jákvætt að liðið er að skora mörk en það gengur illa að loka búrinu. Þá er það að sjálfsögðu ekki að hjálpa að fyrirliðinn og markamaskínan, Konráð Sigurðsson, er meiddur.
Næsti leikur er gegn liði Kára á Akranesi næstkomandi sunnudag og annar heimaleikur sumarsins er síðan laugardaginn 9. júní þegar lið Vestra kemur í heimsókn.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.