Viðbrögð Almannavarna á NV-landi vegna COVID-19 faraldursins

Eins og alþjóð veit þá geisar nú skæður veirufaraldur, sem veldur veikinni COVID-19. Síðan síðastliðinn föstudag, 6. mars, hafa almannavarnir á Íslandi starfað á neyðarstigi almannavarna, sem er hæsta viðbúnaðarstig þeirra. Hluti af viðbrögðum almannavarna er samkomubann, sem tekur gildi á miðnætti aðfaranótt mánudagsins 16. mars og stendur í fjórar vikur. Bannið gerir samkomur með fleiri en 100 þáttakendum óheimilar. Á sama tíma eru settt þau skilyrði á samkomur með færri en 100 þátttakendum að þar sé það pláss að hægt sé að hafa a.m.k. 2 metra á milli manna. Einnig er sett bann við skólahaldi í framhalds- og háskólum, en á okkar svæði er um að ræða Fjölbrautaskóla Norðurlands Vestra og Háskólann á Hólum. Nánari útfærslur á því hvernig staðið er að þessum lokunum hjá skólunum má finna á heimasíðum þeirra.

Þessar aðgerðir eru liður að aðgerðum almannavarna til að lágmarka útbreiðslu sjúkdómsins og lengja tímann á útbreiðslu hans, sem leiðir til þess að heilbrigðiskerfið á Íslandi ræður betur við sjúkdóminn. Lögð er sérstök áhersla á að vernda viðkvæma hópa við sjúkdómnum og er það verkefni okkar allra. Því er mikilvægt að hver og einn, sérstaklega þeir í viðkvæmum hópum,  hugi að eigin heilbrigði og sjúkdómsvörnum og má fá góðar leiðbeiningar um slíkt á heimasíðu landlæknis – landlaeknir.is. Það er mikilvægt að fólk haldi ró sinni og engar líkur eru til þess að upp komi matar, - eða vöruskortur á Íslandi, eða Norðurlandi vestra. Þeir sem finna fyrir miklum kvíða og eða óþægindum vegna frétta og umfjöllun um sjúkdóminn er bent á hjálparsíma Rauða Krossins - 1717.  Telji einhver að hún/hann séu smituð af sjúkdóminum er viðkomandi aðila bent á að hringja í sína heilsugæslu á dagvinnutíma eða í númerið 1700, þar sem að heilbrigðisstarfsfólk mun aðstoða þá. Ekki fara á heilsugæsluna án þess að hringja.

Viðbrögð almannavarna
Síðastliðinn mánudag var virkjuð Aðgerðarstjórnstöð Almannavarna (AST) fyrir Norðvesturland á Sauðárkróki. Er hún skipuð fulltrúum viðbragðsaðila og heilbrigðisstofnana sem reynslu hafa af stjórnun almannavarnaraðgerða. Aðgerðastjórnstöðin samhæfir og stýrir aðgerðum í umdæminu. Lögð hefur verið áhersla á að vinna að samræmingu skipulagningu á viðbrögðum, heilsugæslu, sveitarfélaga og viðbragðsaðila. Skipulagið snýr að því að hægt sé að sinna þeim sem sýkjast (einangrun)  og þeim sem mögulega gætu verið sýktir (sóttkví), ýmist í heimahúsi, í sóttkvíarhúsi eða á sjúkrastofnunum. Einnig miðast skipulagið við að tryggt sé að innviðir samfélagsins og mikilvæg fyrirtæki og stofnanir geti áfram starfað. Mikilvægt er að öll fyrirtæki og stofnanir komi sér upp neyðaráætlunum og skipi sér neyðarstjórnir, þar sem að starfsemin er skipulögð þannig að lágmarkað sé að fjöldi starfsmanna veikist og að starfsemin geti haldið áfram þó svo að hluti starfsmanna veikist. Mun AST kalla eftir slíkum áætlunum í næstu viku.

Til að tryggja viðbragð á Norðurlandi Vestra hefur AST ákveðið að skipaðar verða þrjár vettvangsstjórnir (VST), Í Skagafirði, A-Húnavatnssýslu og V-Húnavatnssýslu. Þessar vettvangstjórnir eru mannaðar af heilbrigðisstarfsfólki, tengiliðum sveitarfélaga og aðillum sem reynslu hafa af stjórnun og skipulagi aðgerða. Hlutverk vettvangsstjórna er að stýra aðgerðum á hverju svæði fyrir sig framkvæma skipulag og ákvarðanir AST.

Við teljum að almannavarnir og  viðbragðsaðilar á Norðulandi Vestra séu vel undirbúnir fyrir þetta krefjandi verkefni. Verkefnið er viðamikið og krefjandi og nauðsynlegt er að allir taki höndum saman til þess að lágmarka neikvæðar afleiðingar þessa sjúkdóms.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir