Víða hálka á Norðurlandi vestra

Skjáskot af vedur.is
Skjáskot af vedur.is

Það voru kannski fleiri en blaðamaður Feykis sem trúði því ekki að skipta þyrfti um dekk á bílnum alveg strax og áttu jafnvel von á því að þetta tæki stutt af og færi jafn hratt og það kom. Skemmst er frá því að segja að bíllinn minn á tíma í dekkjaskipti á morgun og stóð tæpt að blaðamaður kæmist til vinnu í morgun, slík var hálkan að heiman til vinnu.

Fallegt hefur það þó verið veðrið, dag eftir dag og norðurljósa - stórsýning kvöld eftir kvöld. Spáin fyrir Strandir og Norðurland vestra í dag er norðlæg átt 3-8, en norðaustan 5-13 annað kvöld. Skýjað og dálítil slydda eða rigning með köflum. Hiti 0 til 4 stig. Veðurhorfur á landinu næstu daga, á föstudag: Austan og norðaustan 5-10 m/s, en 10-15 á Vestfjörðum. Víða dálítil rigning, en styttir upp á Suður- og Vesturlandi eftir hádegi. Norðlægari og bætir í vind og rigningu á austanverðu landinu undir kvöld. Hiti 2 til 8 stig, mildast sunnanlands.

Á laugardag:
Norðan 10-15 á norðvestanverðu landinu með slyddu eða snjókomu og hita um og undir frostmarki. Hægari breytileg átt sunnan- og austanlands með dálitlum skúrum og hita 1 til 6 stig.
Á sunnudag:
Austan og norðaustan 5-13. Dálítil úrkoma víða um land, slydda eða snjókoma norðantil með hita kringum frostmark, en rigning sunnanlands með hita að 6 stigum.

Veðurfréttakona Feykis kveður á þeim orðum að þeir sem ætla að afneita hálkunni eitthvað áfram og bíða lengur með að skipta yfir á vetrardekkin í þeirri von um að veturinn sé ekki að mæta alveg strax (já eða eru að bíða eftir tíma í dekkjaskipti), akið varlega. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir