Við leggjum niður störf í heilan dag
Á vefnum kvennafri.is segir að þrátt fyrir áratugalanga baráttu búum við enn í samfélagi þar sem langlífasti og útbreiddasti faraldurinn sem við eigum við að etja er kynbundið ofbeldi, ásamt því að framlag kvenna til samfélagsins er gróflega vanmetið. Hver rannsóknin á fætur annarri sýnir fram á sláandi tölur um misrétti og ofbeldi, en viðbrögðin eru lítil sem engin. Við sem samfélag virðumst orðin samdauna stöðunni og teljum að jafnrétti komi með tímanum — jafnvel þó vitað sé að það muni a.m.k. taka heila ævi.
Þrátt fyrir ítrekuð mótmæli og baráttu fyrir jöfnum kjörum höfum við ekki enn náð jafnrétti á Íslandi. Konur lögðu í fyrsta skipti niður störf 24. október 1975 og svo aftur 1985, 2005, 2010, 2016 og 2018, auk þess að blásið var til netherferðar árið 2020 þegar ekki var hægt að koma saman vegna heimsfaraldar.
Skipulagðir viðburðir á Norðurlandi vestra í dag 24. október eru eftirfarandi:
Á Hvammstanga á að hittast í Stúdíó Handbendi frá klukkan 12:00-16:00, sýna samstöðu og samhug, ræða málin sem brenna á konum í Húnaþingi á skemmtilegum nótum.
Á Blönduósi á að hittast í Félagsheimilinu klukkan 12:00, ganga saman að bæjarskrifstofunni og aftur í Félagsheimilið og horfa saman á streymið frá viðburði dagsins á Arnarhóli og fá sér kaffi. Þær sem hafa ekki tök á öðru en að taka börnin með þá er það að sjálfsögðu velkomið. Konur í Húnabyggð eru hvattar til að mæta sýna samstöðu og samhug og ræða málin sem brenna á konum í Húnabyggð á skemmtilegum nótum að sjálfsögðu.
Í Skagafirði á að hittast við Ráðhúsið á Sauðárkróki klukkan 13:30 og ganga saman flyktu liði í Gránu við Aðalgötu 21 horft verður saman á beint streymi frá viðburði dagsins á Arnarhóli og drukkið kaffi. Allar konur og kvár í Skagafirði sem geta lagt niður störf eru hvött til að mæta.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.