Við erum báðir stórfurðulegir
Tökur á kvikmyndinni Rokland sem byggð er á samnefndri metsölubók Hallgríms Helgarsonar hófust á Sauðárkróki gær. Ólafur Darri fer með hlutverks hins stórgáfaða en misskilda karakters Bödda. Ég hitti Ólaf Darra á Ólafshúsi þar sem tökulið og leikarar Roklands enduðu 13 klukkustunda vinnudag með máltíð og drykkjum. Ólafur var það ljúfur að leyfa mér að spyrja sig nokkurra spurninga um kvikmyndina og það erfiða hlutverk sem hann leikur.
Lastu bókina?
-Já ég las bókina fyrir um 2 árum síðan og fannst hún mjög góð og vildi endilega koma í prufu fyrir hlutverk Bödda, það voru margir sem sóttust eftir þessu hlutverki og erfitt var fyrir leikstjórann að velja en á endanum var heppnin með mér og ég fékk hlutverkið.
Böddi er frekar litskrúðugur karakter, fannst þér erfitt að koma þér inn í hlutverkið?
-Já ég verð nú að segja að það sé frekar erfitt að koma hlutverkinu til skila.
Fannstu eitthvað sameiginlegt með þér og Bödda?
-Við erum báðir stórfurðulegir, en á misjafnan hátt, ég er aðeins öðruvísi skrýtinn en hann Böddi...
Þar sem þú last bókina, kannaðistu eitthvað við þig þegar
þú komst hingað á Sauðárkrók til að byrja tökur?
-Já ég hef alltaf kannast mjög við mig hér á Sauðárkróki, ég kom í sveit hér nálægt oft í æsku með fjölskyldu minni og mér hefur alltaf fundist þetta vera fallegur bær. Verst er að þegar tökur standa svona lengi á daginn að þá get ég ekki tekið mér göngutúr um í bænum og notið fegurðarinnar.
Fyrsti dagurinn var frekar erfiður þar sem þið unnuð í 13 klukkustundir, býstu við því að flestir tökudagar verði svona lengi?
-Fyrsti dagurinn var erfiður já en það kom mér ekki á óvart, fyrstu dagarnir eru yfirleitt strembnir, en ég býst við því að venjulegur tökudagur sé í um það bil 12 klukkustundir enda eru þetta mjög miklar tökur og margt að gera.
Hvenær megum við búast við því að sjá myndina í bíó?
-Ég mundi segja að myndin yrði tilbúin eftir svona hálft – 1 ár.
Er myndin aðallega tekin upp í Skagafirði?
-Það er mikið tekið upp í Skagafirði en líka mikið tekið upp í Reykjavík og Mosfellsbæ, en það eru bara innanhússenur og þess háttar.
Ertu með einhver fleiri spennandi verkefni í gangi þegar búið verður að skjóta Rokland?
-Já ég byrja að leika í Þjóðleikhúsinu í leikriti um ævi Mexíkönsku listakonunnar Fridu Kahlo eftir tökur á þessarri mynd.
Texti; Lilja Katrín Ólafsdóttir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.