Við ætlum okkur bikarinn
„Þetta lið er náttúrulega stórkostlegt og [stelpurnar] eiga þetta svo sannarlega skilið. Þvílík samheldni, barrátta og hrein gæði sem skila þessu hjá þeim. Stórkostleg blanda af leikmönnum og allt teymið i kringum liðið er alveg frábært.,“ sagði Donni þjálfari þegar Feykir spurði hann eftir leikinn í kvöld hvað hann gæti sagt um liðið sitt sem þá var nýbúið að endurheimta sæti sitt í efstu deildinni í kvennaknattspyrnunni.
„Stelpurnar skiluðu þessu vel í hús. Þetta var ekki best spilaði leikurinn okkar en fagmanlegt að skora fimm góð mörk og halda hreinu,“ sagði hann aðspurður um leikinn gegn Augnabliki. „En okkar markmið eru alveg klár – við ætlum okkur bikarinn og núna viljum við að ALLIR mæti og styðji stelpurnar og búi til alvöru stemningu á föstudaginn,“ sagði þjálfarinn en lið Tindastóls fær topplið FH í heimsókn á Krókinn í síðustu umferð Lengjudeildarinnar nk. föstudagskvöld. Einu stigi munar á liðunum og því ekkert nema sigur sem kemur til greina hjá Stólastúlkum ef þær ætla að endurheimta bikarinn.
„Ég er svo stolt af liðinu okkar, þetta er gríðarlegt afrek að fara upp strax eftir fallið í fyrra,“ sagði Amber Michel, markvörður Tindastóls, þegar Feykir spurði hvort hún væri ekki ánægð með sigurinn í kvöld og gengið í sumar. Amber hefur verið gríðarlega traust í markinu en talsvert meira mæddi á henni fyrri helming móts.
Allir gefa sig 100% í verkefnið
Þá spurði Feykir Bryndísi Rut Haraldsdóttur, fyrirliðann frábæra frá Brautarholti, hvað henni þætti um að vera komin með sæti í efstu deild á ný. „Virkilega gaman að klára stóra markmiðið í kvöld og komast aftur upp í efstu deild! Er enn að átta mig á því eiginlega! Leikurinn í kvöld snerist mikið um andlegu hliðina og að spila okkar leik og við náum að skora góð fjögur mörk í fyrri hálfleik en það var virkilega góð tilfinning að vera í þeirri stöðu [í hálfleik]. Klárum síðan leikinn með góðum varnarleik og öðru marki í seinni hálfleik. Fannst við vera með þetta í okkar höndum frá því í byrjun og stóðum allar saman í öllum aðgerðum sem uppsker sigurinn!“
Var Lengjudeildin erfiðari í ár en síðast og hvað hefur komið þér mest á óvart?„Mér finnst Lengjudeildin vera orðin sterkari en fyrir tveim árum, auðvitað var erfitt líka í hittifyrra að komast upp en það hefur reynt mikið á hópinn í sumar með meiðsli og slíkt sem hefur verið erfitt. Hinsvegar er þessi hópur þannig að hann gefst aldrei upp og allir gefa sig 100% í verkefnið! Lengjudeildin er að styrkjast og mér finnst það gleðifréttir því gæðin hér á Íslandi verða bara betri! Kemur mér svolítið á óvart hvað umfjöllunin á Lengjudeildinni hefur verið lítil í sumar miðað við fyrr, það er mitt mat. Aftur á móti er það litla málið í þessu þegar við erum að fókusera á stór markmið!“
Hvað geturðu sagt um liðið sem þú hefur leitt í sumar og teymið á bak við liðið?„Þetta lið er bara eins og fjölskyldan manns, erfitt að lýsa því öðruvísi en þannig. Auðvitað eru hæðir og lægðir en við stöndum saman og að falla niður um deild og halda svipuðum mannskap sýnir þrautsegjuna og ástríðuna sem þessi hópur hefur. Elska þessar stelpur svo einfalt er það! Ég hef verið mjög ánægð með þjálfarana, styrktarþjálfaran, sjúkraþjálfarana, meistaraflokksráðið, stuðningsmenn, framkvæmdarstjóra og stjórnina í sumar. Það voru allir að róa í sömu átt en núna þarf að bæta í og leggja enn harðar af sér!“
Hvað á svo að gera á föstudagskvölið?„ Einn leikur eftir og stefnan sett á að vinna þann leik og taka bikarinn heima. Vonandi fáum við þann stuðning sem við þurfum og að ALLIR komi á völlinn! Áfram Tindastóll!!“
- - - - - -
Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá því í kvöld sem koma úr ýmsum áttum. Ef einhverjir hafa áhuga á að bæta myndum í syrpuna þá má senda þær á feykir@feykir.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.