„Við ætlum að toppa á réttum tíma í þetta skiptið“ segir Baldur Þór
Það stóð ekki til að Krókurinn yrði körfulaus yfir jól og áramót. Það átti meira að segja að spila leik í Subway-deildinni milli jóla og nýárs en þegar upp kom Covid-smit í leikmannahópi Tindastóls varð að fresta fyrirhuguðum leik við góðvini okkar og granna í Þór á Akureyri. Fleiri lið hafa glímt við Covid-grýluna síðustu vikur og má segja að helming leikja í efstu deild hafi verið frestað frá því um jól.
Feykir lagði nokkrar spurningar fyrir Baldur Þór Ragnarsson, þjálfara Tindastóls, nú fyrir helgina en hann segir að síðari umferðin í Subway leggist vel í sig og býst hann við jafnri deild með mörgum óvæntum úrslitum.
Hefur Covid sett mikið strik í reikninginn við undirbúning liðsins yfir jól og áramót? „Já, við fórum allir í sóttkví og margir leikmenn liðsins fengu Covid. Fyrsta æfing með fullan hóp var fimmtudaginn 6. janúar [í fyrradag].“
Massamba hefur verið sendur heim og Zoran Vrkic er kominn í hans stað. Hver er hugsunin á bak við þessi skipti, hvað kemur hann með að borðinu? „Hann kemur með meiri breidd í teiginn auk þess á hann að vera góður skotmaður sem getur teygt á gólfinu sem ætti að hjálpa liðinu fyrir utan línuna.“
Við fengum vondan skell þegar Þórsarar komu í heimsókn fyrir jólin. Flestir myndu skrifa upp á að leikurinn hafi ekki gefið raunsanna mynd af muninum á liðunum. Hvað er það sem gerist í þessum leik sem verður til þess að leikurinn tapast með 43 stiga mun og hvað læra menn af svona leik? „Þórsarar hittu á glansleikinn sinn, við hittum á okkar versta dag og illa fór. Varnarleikurinn okkar var sá slakasti í allan vetur. Lærdómur er að standa saman og vita að þetta er maraþonhlaup, ekki spretthlaup. Við ætlum að toppa á réttum tíma í þetta skiptið.“
Er eitthvað sem hefur komið þér á óvart í deildinni það sem af er og hvað þá helst? „Það kemur svo sem lítið á óvart, það eru 8-9 lið sem eru að setja mikið púður í þetta og ætla sér Íslandsmeistaratitilinn, öll liðin eru með 3-4 high profile atvinnumenn og með 2-3 Íslendingaí landsliðsklassa. Deildin er gífurlega sterk og hefur styrkst á hverju ári núna síðan erlendir leikmenn voru leyfðir aftur.“
Leikur Tindastóls við Þór Akureyri hefur verið settur á 10. janúar. Áttu von á að leikurinn fari fram og er lið Stólanna klárt í slaginn? „Já, ef Covid leyfir þá fer leikurinn fram, við verðum eins klárir og við getum með okkar stutta undirbúning.“
Einhver skilaboð til stuðningsmanna Tindastóls í lokin? „Upp og áfram, seasonið er hálfnað, við erum með gott lið í ár. Sínum liðinu öllu stuðning! ÁFRAM TINDASTÓLL!,“ segir Baldur Þór að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.