Vg og Húnavatnshreppur vilja halda í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti
Hreppsnefnd Húnavatnshrepps leggst alfarið gegn hugmyndum ríkisstjórnarinnar um sameiningu landbúnaðar- sjávarútvegs- og iðnaðarráðuneytis í eitt atvinnumálaráðuneyti. Í sama streng tók ályktun flokksráðsfundar Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs þar sem skorað var á stjórn og þingflokk VG um að áform um endurskipulagningu stjórnarráðsins verði enduskoðuð í ljósi breyttra aðstæðna og yfirfarin áður en frekari skref verða tekin.
Segir í ályktun flokksráðsfundar að á næstu árum muni grunnatvinnuvegir þjóðarinnar svo sem landbúnaður og sjávarútvegur skipta verulegu máli við endurmótun íslensks atvinnulífs, eftir sviðna jörð frjálshyggjunnar og græðgisvæðingu undanfarinna ára. því sé varhugavert að draga úr vægi ofangreindra atvinnugreina innan stjórnsýslunnar á sama tíma og þjóðin þurfi öðru fremur að treysta á þessa málaflokka í þeim hremmingum sem nú ganga yfir.
Hreppsnefnd Húnavatnshrepps hefði hins vegar þetta um málið að segja; - Á þessum viðsjárverðu tímum eru styrk og sjálfstæð ráðuneyti atvinnuveganna lífsnauðsynleg. Það er jafnframt forsenda fyrir betri og skilvirkari vinnubrögðum valdhafa til handa undirstöðuatvinnuvegunum og til eflingar efnahag þjóðarinnar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.