VG í Skagafirði vilja endurreisn sjúkrahússtjórna

Fundur Vinstrihreyfingarinnar Græns framboðs haldinn í Varmahlíð 30. janúar 2010 skorar á þingmenn flokksins og heilbrigðisráðherra að beita sér fyrir beinni aðkomu heimamanna að ákvörðunum sem teknar eru um heilbrigðisþjónustu. 

Er það mat fundarmanna að slík aðkoma sé mjög mikilvæg nú þegar ljóst er að standa þarf fyrir sársaukafullum aðgerðum.  Í ályktun þeirra segir; -Þess er krafist að látið verði af miðstýringaráráttu í heilbrigðisþjónustu sem beinist ekki síst gegn heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni.  Framkvæmd niðurskurðar er varasöm og getur hæglega snúist upp í andhverfu sína, ógnað öryggi íbúa viðkomandi svæða og haft neikvæð áhrif á búsetuþróun.  Hvatt er til þess að endurreistar verði stjórnir heilbrigðisstofanna til að veita heilbrigðisyfirvöldum aðhald og vera jafnframt ráðgefandi í stefnumörkun og forgangsröðun verkefna hjá viðkomandi heilbrigðisstofnun.

Flokkur sem kennir sig við velferð og kvenfrelsi getur ekki horft fram hjá þörfum kvenna og sjálfsögðum rétti á þjónustu og öryggi í kringum barnsburð. Mikilvægt er að tryggja ljósmæðraþjónustu fyrir allar konur, jafnt í dreifbýli sem þéttbýli og að eðlilegar fæðingar geti verið sem næst heimili konunnar.  Skortur á ljósmæðraþjónustu ógnar öryggi kvenna og barna og veldur gríðarlegum kostnaði í formi sjúkraflutninga og ferðakostnaðar. Öryggi felst ekki síst í grunnþjónustu ljósmæðra, sem eru sérfræðingar í eðlilegu barneignarferli, þekkingu þeirra og færni til að greina áhættuþætti og aðstoða konu við val á fæðingarstað, góðu aðgengi að fæðingarstöðum og öðrum sérfræðingum þegar það á við og faglegum vinnubrögðum.  Kanna ber kosti þess að embætti héraðsljósmóður verði tekið upp að nýju og ljósmæður skipaðar í héruð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir